139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[14:37]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er fest í lög heimild til handa Samkeppniseftirlitinu til að brjóta upp markaðsráðandi fyrirtæki ef ástæða þykir til. Það liggur ljóst fyrir að þeirri heimild verður beitt af hófsemi enda um að ræða íþyngjandi ákvörðun og algjörlega ljóst að Samkeppniseftirlitið mun þurfa að rökstyðja slíkar ákvarðanir. Löggjöfin á sér fyrirmynd í löggjöf nágrannalanda okkar og í landi eins og Íslandi þar sem fákeppni er almennt ráðandi á flestum mörkuðum á hún meira erindi en í flestum öðrum löndum (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og það er engin vörn fyrir atvinnulíf í landinu að vera ofurselt fákeppni, þvert á móti er samkeppni lykill að framförum.