139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

prestur á Þingvöllum.

282. mál
[16:52]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um prest á Þingvöllum. Nú er það svo, virðulegi forseti, að prestur sinnir Þingvöllum að hluta en þessi tillaga ályktar að lengra sé gengið. Hún ályktar að fela dóms- og mannréttindaráðherra, hæstv. innanríkisráðherra, að semja við þjóðkirkjuna um fasta þjónustu prests tengda Þingvöllum og Þingvallakirkju þannig að guðsþjónustur megi vera þar allar helgar ársins. Þetta er hugsað í virðingarskyni við Þingvelli, virðulegi forseti, virðingarskyni við kirkjuna og sögu okkar þar sem kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000.

Til skamms tíma var fast prestsembætti á Þingvöllum en með aflagningu þess setti þjóðkirkjan og eins íslenska þjóðin ofan. Þær hugmyndir sem liggja að baki þessari tillögu eru að gera Þingvallakirkju að föstum lið, föstum möguleika fólks í landinu til að heimsækja á helgum dögum og auðvitað hlyti slíkt að vera opið fyrir aðra kristna söfnuði. Á Þingvöllum slær Íslandsklukkan í sál Íslendinga og gamla kirkjan sem þar stendur er tákn um auðmýkt, lítillæti og þakklæti íslensku þjóðarinnar fyrir kristnina, þann sið sem tekinn var upp á Alþingi á Þingvöllum árið 1000 og gerði Íslendinga að einni þjóð. Oft var þörf en nú er nauðsyn að þétta raðirnar hjá íslenskri þjóð. Þetta getur verið liður í því, virðulegi forseti, að hnykkja á og festa í sessi það starf sem mögulegt er að starfrækja í þessari litlu, íslensku, gamaldags kirkju.

Á rótum trúar, hefðar og siðar hefur íslenska þjóðin komist í gegnum þykkt og þunnt með ótrúlegu æðruleysi þótt á móti hafi blásið oft og tíðum. Það er engin spurning um það að samkomur þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga í Þingvallakirkju yrðu uppbót og styrkur fyrir íslensku þjóðina og það er ekkert sem bendir til annars en að margir mundu kunna að meta þá þjónustu að messað væri í Þingvallakirkju um hverja helgi ársins. Til að mynda gæti það verið auðveld lausn á þessari ósk að fela prestum landsins að skiptast á að messa í Þingvallakirkju. Þá yrðu prestarnir kannski annað hvert ár í þessari litlu kirkju og það yrði fastur atburður tengdur mannlífi, þjóðlífi og trú að bjóða upp á slíka þjónustu í Þingvallakirkju. Slíkt ætti að vera auðvelt fyrir okkar skeleggu prestastétt og segja má að þarna sé komið svolítið inn á það starfssvið sem kirkjan sjálf skipuleggur og hrindir fram. Við flutningsmenn teljum það svo mikilvægt að styrkja stöðu Þingvalla og þeirra þátta sem ég gat um í upphafi tengda kirkjunni, að menn eigi að leggjast á eitt um að ganga fram eins metnaðarfullt og mögulegt er.

Við teljum að skipulegar samkomur í Þingvallakirkju sem fastur liður mundu stækka helgi Íslands og ekki síst helgi Þingvalla. Fyrir litla þjóð veiðimannasamfélags, sem því miður margir Íslendingar gera sér ekki grein fyrir að er grundvöllur alls okkar starfs á Íslandi, er mjög mikilvægt að ankerin séu á sínum stað hverju svo sem fram vindur að öðru leyti. Þess vegna er tillaga sett fram, virðulegi forseti, um að styrkja stöðu Þingvalla og þess starfs sem þar getur verið tengt þjóðinni um aldir alda og ætti að geta gert þjóðinni gott með litlum tilkostnaði.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til allsherjarnefndar.