139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar um breytingar á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Málið var tekið aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. þar sem nokkrir nefndarmenn vildu ræða nánar um málefni húsnæðissamvinnufélaga. Nú er það svo að þetta frumvarp nær eingöngu til íbúðalána einstaklinga en ekki til lána til húsnæðissamvinnufélaga. Nefndin fór ítarlega og sérstaklega yfir þetta og fékk á sinn fund fund fulltrúa frá Búmönnum, Búseta og Búseta á Norðurlandi sem og frá velferðarráðuneytinu og Íbúðalánasjóði.

Niðurstaða nefndarinnar var sú að ekki væri hægt að láta húsnæðissamvinnufélögin falla undir þetta frumvarp, enda eru þau félög en ekki einstaklingar eins og gefur að skilja og viðmiðin í frumvarpinu miðast við tekju- og eignaviðmið einstaklinga. Húsnæðissamvinnufélögin munu fá skuldameðhöndlun samkvæmt 47. gr. laga um húsnæðismál og er þá sérstaklega vísað þar í 6. mgr. Leggur nefndin mikla áherslu á að það verði tryggt að grundvöllur undir rekstur þessara félaga verði treystur og að íbúarnir séu með viðráðanlega greiðslubyrði, sérstaklega í ljósi sérstöðu húsnæðissamvinnufélaganna á húsnæðismarkaði og mikilvægi þeirra fyrir fjölbreytni á húsnæðismarkaðnum. Er það eindreginn vilji nefndarinnar að hugað verði sérstaklega að þessu. Nefndin hefur einnig ákveðið að kalla velferðarráðuneytið fyrir fljótlega á næstu vikum til að ræða sérstaklega málefni húsnæðissamvinnufélaganna.

Ég vil varðandi þetta mál almennt segja að með samþykkt þessa frumvarps er Alþingi að heimila Íbúðalánasjóði að fara í niðurfærslu skulda að 110% veðsetningarhlutfalli samkvæmt því samkomulagi, því víðtæka samkomulagi sem stjórnvöld gerðu við lánastofnanir og aðila vinnumarkaðarins um skuldavanda heimila og fyrirtækja. Ræddar hafa verið bæði í nefndinni og hér í þingsal áhyggjur þingmanna yfir því að þetta sé ansi mikill kostnaður fyrir Íbúðalánasjóð. Þetta eru tæplega 22 milljarðar. Í heild mun 110%-leiðin kosta lánakerfið um 100 milljarða og Íbúðalánasjóður ber því um fimmtung af þeim kostnaði. Hitt eru afskriftir skulda innan bankakerfisins og því ber að fagna að þar sé verið að nýta afskriftarými.

Ég get stutt þetta, þrátt fyrir að ég hafi áhyggjur af þessum kostnaði og að þetta séu almennar aðgerðir sem oft eru ekki nógu hnitmiðaðar, þar sem ég tel að þetta séu tillögur sem unnar hafi verið í mjög víðtæku samráði og að þeir sem yfir þetta fóru mjög ítarlega töldu að þetta væru mikilvægustu aðgerðirnar og líklegastar til að koma af stað hreyfingu á húsnæðismarkaði og létta lífið hjá mest skuldsettu heimilunum, þ.e. þeim sem eru hvað mest skuldsett vegna íbúðarhúsnæðis.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir framsögumaður, Ólafur Þór Gunnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Valgerður Bjarnadóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason og Unnur Brá Konráðsdóttir.