139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

aðild NATO að hernaði í Líbíu.

[15:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Hæstv. forseti. Í gær samþykkti Norður-Atlantshafsráðið, sem er æðsta ákvörðunarvald Atlantshafsbandalagsins, að taka við stjórn allra hernaðaraðgerða alþjóðaliðsins í Líbíu á grundvelli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ákvörðunin var tekin einróma og samþykkt af ríkisstjórnum allra aðildarlanda bandalagsins, þar á meðal Íslands. Ákvörðun ríkisstjórnar Íslands, um að taka þátt í þessum hernaðaraðgerðum, er væntanlega svo sjálfsögð að mati hennar að ekki þótti tilefni til að upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis sérstaklega um þessa fyrirætlan. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra sem formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvort vinstri grænir styðji ákvörðun Atlantshafsbandalagsins frá því í gær um að bandalagið taki yfir stjórn hernaðaraðgerða í Líbíu.