139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 35/2010 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

629. mál
[12:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Enn held ég áfram aðlögunarferlinu og flyt frekari tillögur, þó ekki jafnróttækar og þá sem ég mælti fyrir áðan, sem miða að innleiðingu reglugerða og tilskipana frá Evrópusambandinu. Sú þingsályktunartillaga sem ég mæli nú fyrir felur í sér að leitað er heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir hönd íslensku þjóðarinnar ákvörðun nr. 35/2010 af hálfu sameiginlegu EES-nefndarinnar sem felur í sér breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn sem fjallar um vernd fyrir neytendur. Gert er ráð fyrir því að inn í samninginn verði felld tilskipun þingsins og ráðsins 2009/22/EB sem varðar setningu á lögbanni yfir landamæri til þess að verja hagsmuni neytenda.

Með þessari tilskipun er í reynd verið að endurútgefa fyrri tilskipun, 98/27/EB, sem fjallar um hið sama en nær miklu skemmra. Neytendaverndin samkvæmt breytingunni er yfirgripsmeiri og tekur fastar á heildarhagsmunum neytenda.

Tilskipunin hefur frá upphafi verið ýmsum breytingum undirorpin og tekið töluverðum stakkaskiptum. Með hliðsjón af skýrleika og til hagræðingar var ákveðið að gefa hana út aftur í nýju formi. Þá var jafnframt einni tilskipun bætt við listann sem hún tekur yfir, þ.e. tilskipun 2008/122/EB um neytendavernd, og varðar tiltekna þætti skiptileigusamninga, langtímasamninga um orlofstilboð, endursölu og sömuleiðis skiptasamninga.

Megintilgangur hinnar upphaflegu tilskipunar og nú hinnar nýju er að koma í veg fyrir ólögmæta háttsemi sem gæti haft neikvæð áhrif á hagsmuni neytenda sem eiga eða stunda viðskipti yfir landamæri. Þá er lagt til grundvallar að í öllum aðildarríkjunum séu til réttarúrræði sem gera kleift að stöðva ólöglega markaðsfærslu sem brýtur í bága við hagsmuni neytenda og er bönnuð samkvæmt tilteknum áður innleiddum og samþykktum tilskipunum á sviði neytendaverndar. Þarna er um að ræða tilskipanir sem varða neytendalán, orlofsferðir, skilyrði í samningum við neytendur sem hægt er að færa óyggjandi rök fyrir að séu ósanngjörn, ósanngjarna viðskiptahætti og annað sem tengist fjarsölusamningum. Það er líka rétt að nefna að með tilskipuninni og forvera hennar sem ég gat um er ekki lagt upp með að samræma réttarúrræði eða réttarfar aðildarríkjanna heldur að auðvelda hlutaðeigandi yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum að krefjast dómsúrskurðar eða lögbanns gegn ólögmætum athöfnum í því ríki þar sem varnarþing brotaaðilans er.

Innleiðing þessarar tilskipunar krefst ekki mikillar lagabreytingar en þó þarf að breyta 1. gr. laga nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál, til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Í greininni er sömuleiðis tilgreint að lögin eigi við þegar ástæða þykir til að krefjast lögbanns til þess að vernda hagsmuni neytenda samkvæmt ákvæðum íslenskra laga sem hafa verið sett upp samkvæmt þeim tilskipunum sem eru taldar upp í viðauka við þá sem nú er verið að fella úr gildi en taka upp í hinni nýju. Þessar breytingar sem ég nefndi fela í sér að gera þarf viðbætur við upptalningu þeirra tilskipana sem lögin taka til en í því felst sem sagt að menn brjóti út jaðar þess vallar sem vörnin fyrir neytendur er háð á. Lögin sem ég nefndi heyra undir hæstv. innanríkisráðherra og hann mun axla það ok sem í því felst að leggja fram frumvarp sem lýtur að þeirri lítils háttar breytingu sem þarf að gera á 1. gr. laga nr. 141/2001. Ekki er gert ráð fyrir því að breytingarnar hafi í för með sér neinn umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð eða stjórnsýslulegar afleiðingar.

Þessi ákvörðun, ólíkt þeirri sem ég mælti fyrir í síðasta máli, kallar á lagabreytingar hér á landi og gefur ekki fyrirframsamþykki og er ekki óskað eftir því og þess vegna var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Er því óskað eftir í samræmi við reglur sem Alþingi setti fyrr á þessu ári að Alþingi veiti samþykki sitt fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara og hæstv. innanríkisráðherra hafi þá fullt frelsi til þess að koma hingað með þá lagabreytingu sem um var rætt fyrr í tölu minni.

Ég legg til, frú forseti, að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar þegar Alþingi hefur lokið umræðum sínum um hana.