139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

fjármálafyrirtæki.

659. mál
[13:39]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið þó að það sé kannski ekki beint um það mál sem hér er rætt.

Varðandi það sem hann nefnir um skynsemi þess að setja hömlur á að hægt sé að éta hlutafélög innan frá, er ég sammála honum um það. Það er verkefni sem við erum almennt að glíma við. Sú freisting liggur auðvitað ávallt fyrir hendi í hlutafélögum að menn misfari með það traust sem þeim er falið. Við höfum reynt að herða regluverkið um stjórnun hlutafélaga og vilji stendur til þess að halda því áfram og endurmeta eins og kostur er forsendurnar fyrir því með hvaða hætti menn geta hagað sér við stjórn hlutafélaga og auka ábyrgð á þann hátt að menn stjórni hlutafélögum í þágu allra.

Ég held að það þurfi mjög margt til til að vinda ofan af þeirri öfugþróun sem varð hér á síðustu árum en það er mjög mikilvægt að við sköpum forsendur fyrir því að það sé traust á hlutafélagaforminu og því að það virki þegar fram í sækir.