139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

fundarstjórn.

[14:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Það kom fram í máli forsætisráðherra í gær að með þeim tillögum sem ríkisstjórnin er nú að kynna á fundi fyrir aðilum vinnumarkaðarins muni taka verulega í í ríkiskassanum. Það er nokkuð sem ég tel skipta máli fyrir okkur á þessum vinnustað, Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið. Það hefur þegar komið fram í fjölmiðlum að sú hagvaxtarspá sem fjárlögin byggja á virðist ekki ganga eftir þannig að menn hafa verið að tala um að það þurfi hugsanlega að gefa í hvað það varðar en að sama skapi virðist ríkisstjórnin vera að kynna tillögur sem hafa ekki verið kynntar fyrir þingflokkunum, a.m.k. ekki þingflokkum stjórnarandstöðunnar, sem gera það hugsanlega að verkum að þá þurfi jafnvel að skera enn þá meira niður. Þetta eru að mínu mati óásættanleg vinnubrögð.