139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

uppbygging á Vestfjarðavegi.

439. mál
[18:10]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek eftir því að flutningsmenn þessa frumvarps, sem eru hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson, telja í greinargerð sinni með frumvarpinu að í samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum sé einkum tvennt í vegi, annars vegar það mál sem þeir fjalla um og leggja til að sett verði um sérlög en hins vegar það að það sé mikil bið eftir vegagerð frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði sem nú er komin í umhverfismat.

Ég spyr: Af hverju ekki að nota ferðina, úr því að við erum hvött hér til að afnema umhverfismatslögin um þá leið sem þeir ætla sér að fara, B-leiðina frægu um Teigsskóg, af hverju ekki að gera þetta þá um leið með veginn frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði? Ekki getur það verið merkilegra umhverfismat en það sem hér er um að ræða. Ég spyr: Því ekki það? Ef menn ætla að setja hnefann í borðið, taka upp skófluna og ryðja hindrunum úr vegi eiga menn að gera það svikalaust og fara alla leið með það mál.

Hv. flutningsmenn skulda þingheimi og þjóðinni, og ekki síst heimamönnum meðal hennar, skýringu á þessu dugleysi og andvaraleysi með umhverfismatið frá Vattarfirði til Kjálkafjarðar.