139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

uppbygging á Vestfjarðavegi.

439. mál
[18:12]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér gæti átt við hið fornkveðna: Illt er að egna óbilgjarnan. Ástæðan fyrir því að við förum ekki þá leið sem hv. þingmaður er nú að hvetja til, að því er mér heyrist, er einfaldlega sú að við lögðum ekki fram frumvarp af þessu taginu áður en umhverfismat fór fram í Gufudalssveitinni. Við biðum eftir niðurstöðunni. Hún kom. Henni var síðan áfrýjað til hæstv. umhverfisráðherra sem kvað upp nýjan úrskurð sem fól það í sér að komið var mjög til móts við sjónarmið þeirra sem höfðu áhyggjur af náttúrunni á þessu svæði. Þegar við vorum komin í þá stöðu eftir að Hæstiréttur hafði kveðið upp sinn úrskurð, sem byggði á því sem ég rakti áðan, stóðum við einfaldlega frammi fyrir því að ekki var annarra kosta völ.

Auðvitað er vilji okkar sá að fara eftir þeim reglum sem gilda í þessum efnum, við viljum virða þær reglur. Ég tel eðlilegast að bíða eftir niðurstöðu umhverfismatsins, hvernig sem hún verður, ég trúi því að hún geti orðið jákvæð að þessu sinni. Síðan skulum við bara bíða átekta, en hvatning hv. þingmanns mun auðvitað klingja í eyrum mér.