139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir svar hans. Ég tek undir að þetta er eitthvað sem ekki bara við í viðskiptanefnd þurfum að skoða heldur fellur það að sjálfsögðu undir fjárlaganefnd. Við í viðskiptanefnd þurfum svo sannarlega að kynna okkur það líka og hvernig var staðið að þessu. Kannski er staðan orðin þannig að hægt sé að veita ríkisábyrgð án þess að spyrja Alþingi. Alþingi getur bara framselt þetta vald þó að það komi ekki einu sinni fram í þeim lagatexta sem er verið að vísa til í svarinu.

Það sem ég ætla hins vegar að spyrja þingmanninn frekar út í eru þær ræður sem hann flutti í dag, þó ekki endilega þá ræðu sem hann hélt áðan, og varða samskiptin við Evrópusambandið og innstæðutilskipunina. Ég held að það sé nauðsynlegt að frá svör frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem er því miður búinn að yfirgefa okkur sem og varaformaður viðskiptanefndar, um hvað hafi nákvæmlega verið gert til að koma á framfæri þeim upplýsingum og þeirri þekkingu sem við höfum öðlast frá því að bankarnir okkar hrundu í október 2008, um reynslu og þekkingu okkar á því hvað virkaði, hið örfáa sem virkaði varðandi innstæðutilskipunina, og hvað það var sem virkaði ekki, sem var fjölmargt. Menn segja að þetta hafi verið rætt á vinnufundum og ég spyr þingmanninn hvort hann taki ekki undir að nauðsynlegt sé að fá skýr svör frá stjórnvöldum og þá sérstaklega hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem hefur átt nokkuð tíða fundi í Brussel undanfarið um hvað hann hafi gert til að koma þessum upplýsingum á framfæri og líka til að afla sér upplýsinga um hvert Evrópusambandið hyggist stefna með innstæðutryggingakerfið í Evrópu.