139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

uppgjör Icesave-málsins.

[15:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Eftir niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslunni tel ég mikilvægast fyrir okkur Íslendinga að koma því til skila til umheimsins að að öllum líkindum muni þrotabú gamla Landsbankans búa yfir eignum sem munu þegar upp verður staðið greiða bróðurpartinn af þessari umdeildu kröfu, ef ekki alla fjárhæðina. Þetta skiptir líka máli í samskiptum okkar við Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Eins og allir vita er nú beðið eftir svari frá íslenskum stjórnvöldum til eftirlitsstofnunarinnar og við í utanríkismálanefnd munum fara yfir það með ráðherrunum við fyrsta tækifæri hvað líði undirbúningi að því svari. Mig langar til að bera það upp við hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér í því mati að í því svari þurfi að leggja höfuðáherslu á að meðan óvíst er um hvort nokkuð verður eftir ógreitt af þeim kröfum sem Bretar og Hollendingar hafa haft uppi þegar greiddar hafa verið út eignir Landsbankans sé í sjálfu sér óþarfi að skera úr um þennan ágreining.

Best væri ef við gætum fellt málið í þann farveg að þrotabúið fengi tíma til að losa um eignir sínar og greiða þær út til kröfuhafanna og að menn færu ekki í það sem ég vil núna nefna óþarfan lagalegan ágreining fyrir fram um þetta mál. Þannig ynni tíminn með okkur, þrotabúið fengi tíma til að gera upp eignir sínar og við gætum rætt þetta mál þegar því ferli er lokið á þeim lagalegu og efnahagslegu forsendum sem við blasa.