139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Okkur greinir svo sem ekki mikið á í þessu máli.

Hv. þingmaður spyr og veltir fyrir sér hvort við eigum að flytja frumvarp til laga um að færa eitthvert ráðuneyti út á landsbyggðina og hefur af því áhyggjur að það muni hugsanlega stangast á við stjórnarskrá. Ég held hins vegar að við ættum að íhuga það sameiginlega, ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, að breyta þessu jafnvel, af því að hann endaði á að nefna Bandaríkin, þannig að við hefðum bara ákveðin fylki og mundum lýsa yfir sjálfstæði. Það held ég að væri enn þá betra. Þá fyrst held ég að það færi að hitna í kolunum í Reykjavík ef við fengjum að halda tekjum okkar og sæjum um okkur sjálf. Það litist mér bara nokkuð vel á. Við mundum a.m.k. njóta góðs af því miðað við það sem við höfum í dag.

Hv. þingmaður nefndi líka hvort fjárlagafrumvarpið væri hugsanlega mannréttindabrot. Ég man eftir því í umfjöllun í hv. fjárlaganefnd Alþingis þegar fram kom ítarlegt lögfræðiálit frá tveimur heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni um að það stangaðist mögulega á við stjórnarskrá niðurskurðurinn hjá þeim stofnunum, annars vegar heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki og hins vegar á Húsavík. Fyrir því voru færð mjög sterk rök. Ef menn setja þetta í samhengi við mannréttindabrot var fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram og aðallega það sem sneri að heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni að mínu viti algjör aðför að landsbyggðinni. Það var svo ótrúlegt að maður er varla búinn að jafna sig á því enn og er eiginlega með kvíðahnút í maganum yfir væntanlegum fjárlögum fyrir árið 2012. Maður vonar sannarlega að hæstv. ráðherra og hv. þingmenn í stjórnarliðinu hafa lært (Forseti hringir.) af þeirri vegferð sem þeir lögðu í síðastliðið haust (Forseti hringir.) og við munum að sjálfsögðu reka þau til baka ef þau reyna sömu leið aftur.