139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Þó að við ræðum málið með gamansömu ívafi er mikil alvara á bak við það. Það er örugglega mikil alvara fólgin í umræðum um að jafna eigi atkvæði landsmanna að fullu, gera landið jafnvel að einu kjördæmi eða einhverju álíka, þegar mikið ójafnvægi er í nánast öllu öðru sem kemur að ríkisrekstrinum, skömmtunum ríkisins til stofnana og annars slíks. Það er eðlilegt að hleypa smáalvöru í þetta mál.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni kemur stærsti hluti tekna ríkisins frá landsbyggðinni, aðallega í gegnum sjávarútveg eða iðnað. Ef ég man rétt eru áætluð útflutningsverðmæti frá Austfjörðum einum eða Austfjarðahlutanum rúmir 100 milljarðar eða 120 milljarðar, ég man það ekki alveg. Það eru gríðarlegar fjárhæðir og fyrst og fremst í sjávarútvegi og áliðnaði.

Mikið er talað um skuldir við sjávarútveginn. Þær snerta að sjálfsögðu sveitarstjórnarmál vegna þess að sveitarfélögin úti á landi lifa mörg hver á sjávarútvegi. Kannast þingmaðurinn við að reiknað hafi verið út hve mikið af þeim skuldum sem nú eru í samfélaginu urðu til á höfuðborgarsvæðinu, í bönkum, í verslun, í þjónustu og þeim fyrirtækjum sem starfa þar? Það er bara talað um sjávarútveginn sem er landsbyggðaratvinnugrein. Mér þætti gaman að fá samanburð á þessum greinum miðað við það hvað hver grein skilar inn í þjóðarbúið, það væri mjög athyglisvert. Mér þætti vænt um að vita hvort hv. þingmaður þekkir eitthvað til þeirra talna, hve miklu verslun og þjónusta hefur tapað og hverjar skuldirnar eru, hve mikið er búið að afskrifa eins og í iðnaði o.s.frv.

Það er mjög mikilvægt að við stöndum saman og ég vildi óska þess að allur þingheimur stæði saman að því að hafa skilning á hlutverki (Forseti hringir.) og stöðu landsbyggðarinnar þegar kemur að þessum málum.