139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[18:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Eftir þessi orðaskipti er mér enn fyrirmunað að skilja af hverju íslenskum dómurum ætti ekki að vera veitt heimild, eins og dómurum í nágrannaríkjum okkar, til að komast að þeirri niðurstöðu að barni sé fyrir bestu í deilumálum, sem yfirleitt eru ömurleg, að báðir foreldrar skuli fara með forsjána, að það sé einn möguleiki sem dómari má íhuga. En við setjum þá punkt fyrir aftan þá umræðu í bili.

Ég ætla að tala um hitt atriðið og spyrja hæstv. ráðherra út í jafna búsetu eða tvöfalt lögheimili. Í mínum huga er mikilvægt að gera ákveðinn greinarmun á því að eitthvað sé til sem heiti lögformlegt heimili út frá þjóðskrá, að tiltekin manneskja megi bara vera búsett á einum stað. Vel er hægt að sjá þetta fyrir sér í löggjöf. Hins vegar er farið miklu lengra með þetta formlega búsetuhugtak, lögheimili, í barnalögunum eins og þau eru og jafnvel enn lengra í þessu frumvarpi til barnalaga. Ýmsu er hnýtt við þetta lögheimili og allt í einu fer það að verða vaxandi og áleitin spurning hvað það felur í raun í sér að hafa forsjá ef maður hefur ekki lögheimilið. Nefndin á vegum innanríkisráðuneytisins lagði enda til að hægt yrði að fara í dómsmál út af lögheimili og það er eðlilegt ef lögheimili á að vera svona mikilvægt. Spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra er þá: Ef lögheimili á að skipta svona miklu máli (Forseti hringir.) sem mér finnst ganga þvert á það hvernig mál eru og börn búa í raun og veru á tveimur stöðum, af hverju hélt hann sig þá ekki við tillögu nefndarinnar um að hægt væri að fara í mál til að sækja lögheimili?