139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum því miður reynslu af því að á mörgum stöðum er byggðakvóta einfaldlega landað á fiskmarkað og síðan er hann (Gripið fram í.) keyrður burt úr byggðarlögunum. Ég hefði viljað herða á þeim ákvæðum til að hafa þetta meira hvetjandi fyrir landvinnslu.

Menn hafa viljað fara misjafnar leiðir er varða uppbyggingu þessara potta og munurinn á stefnu Framsóknarflokksins og stefnunni eins og ég les hana út úr þessu frumvarpi er sá að ríkisstjórnin vill fara með miklu meiri hraða í uppbyggingu pottanna þegar við horfum aftur á móti til þess að byggja pottana upp á grundvelli aflaaukningar. Við höfum skilning á þörfum þeirra sem eru fyrir í greininni og hafa varið miklum fjármunum til uppbyggingar og hefur ríkisstjórnin gengið heldur lengra í þeim efnum en við hefðum kosið. En eins og ég segi er umræða um þetta allt á byrjunarstigi og vonandi náum við að sníða agnúana af þessu frumvarpi.