139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:53]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég hætti nú við að fara í andsvar með fullri virðingu fyrir hv. þm. Þór Saari og því frumvarpi sem hann mælti fyrir áðan. Ég kem upp um fundarstjórn vegna þess að ég er svolítið hugsi yfir þessu. Við eigum að vera að ræða frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra um strandveiðar en búið er að mæla fyrir öðru frumvarpi í raun og veru og hér hefur farið drjúgur tími, alla vega hálftími, í umræðu um það frumvarp, m.a. með þátttöku hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Við urðum vitni að mjög leiðinlegu atviki í dag, frú forseti, þegar þingmanni, sem hafði þó ekki nema eina mínútu til umráða, var varnað máls vegna þess að forseti taldi að hann væri að bregða út af umræðuefni. Nú erum við búin að eyða ábyggilega hálftíma í að ræða allt annað frumvarp en það sem mælt hefur verið fyrir og er á dagskránni í kvöld. Við erum komin vel yfir kristilegan vinnutíma. Ég kann ekki alveg við þetta, frú forseti, og vildi fá að gera þessa athugasemd.