139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er staðan þannig að ég er sammála hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur en ekki félögum mínum, hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni. (Gripið fram í: Klofningur.) Greinilegur klofningur. Það sem mér þótti athyglisverðast og ég vakti einmitt athygli á í andsvari mínu var það sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir benti réttilega á, þ.e. það afrek hv. þm. Þórs Saaris að mæla fyrir frumvarpi sínu um leið og hann ræddi um hitt. Þó að ég sé mikill talsmaður tjáningarfrelsis þótti mér það mjög sérkennilegt að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skyldi einmitt taka þátt í þeirri umræðu við hv. þm. Þór Saari. Hann kom ekki hingað upp til að verja sitt eigið frumvarp, það fannst mér algjörlega fáránlegt. (Gripið fram í: … sammála Þór?) Þó að ég vilji ekki binda tjáningarfrelsið tek ég undir með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, af því það á eftir að ræða þetta frumvarp sérstaklega, að mér finnst að við ættum að ræða efnislega um það frumvarp sem er á dagskrá og mjög sérkennilegt að upplifa það að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli ekki einu sinni hafa manndóm í sér að verja það því það eru ekki það margir sem verja það fyrir hann í þingsal alla vega og úti í þjóðfélaginu.