139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er misjafnt hvernig unnið er að undirbúningi við lagasmíð. Hér var þannig staðið að málum þegar ný heildarlög um stjórn fiskveiða voru sett árið 1990 að þá voru kallaðir til helstu hagsmunaaðilar, þá var tilnefning líka úr öllum þingflokkum og þá var gríðarlega mikið starf unnið. Það fæddist frumvarp og í athugasemdum við það frumvarp í greinargerðinni sagði m.a. að það væri víðtæk samstaða í nefndinni um ýmis meginatriði varðandi fyrirkomulag fiskveiðistjórnar. Það sem stóð upp úr í öllu því starfi sem þar var unnið var að efla hagkvæmni og skynsamlega nýtingu fiskstofnanna. Það skortir í þeim frumvörpum sem við höfum nú fyrir framan okkur. Þar er ekki megináherslan á að stunda hagkvæmar og skynsamar veiðar, þ.e. að leggja áherslu á hámarksafrakstur af nýtingu fiskstofnanna. Það er það sem hefur algerlega skort á að menn hefðu í forgrunni (Forseti hringir.) þegar þessi tvö frumvörp voru samin. Og við stöndum að sjálfsögðu við það sem fulltrúi okkar í sáttanefndinni hefur sagt.