139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrst varðandi spurninguna sem lýtur að því hvort sá sem hér stendur sé þeirrar skoðunar að starfsnefndir eigi að setja lög og annað þá er óþarfi að spyrja mig að slíku. Ég er ekki þeirrar skoðunar og tel í rauninni spurninguna óþarfa. Hún kom upp í andsvörum milli tveggja þingmanna hér fyrr í kvöld. Ég vildi einfaldlega greina frá því og þeirri skoðun minni vegna spurningar hv. þm. Kristjáns Möllers að ég væri sammála þeim fyrirvara sem fulltrúi þingflokks Sjálfstæðisflokksins í þeirri nefnd gerði við niðurstöðu nefndarinnar og ég taldi rétt að halda þeim fyrirvara til haga.

Hinn þáttur málsins sem lýtur að byggðamálum og hefur allmikið verið ræddur á undanförnum árum er einfaldlega þannig vaxinn að ég er sammála þeim áherslum sem frekar lúta að því að fyrir byggðaþróun í landinu hafi samgöngur, samskipti, heilbrigðisþjónusta, öldrunarþjónusta og menntamál miklu meiri þýðingu fyrir samfélög vítt um land en nokkurn tímann örfá tonn af þorski. Ég hef alla tíð verið andvígur þeim smáskammtalækningum sem gerðar hafa verið með breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég tel að þær hafi skaðað heildarhagsmuni þjóðarinnar. Byggðakvótinn er eitt af þeim fyrirbærum sem ég hef aldrei verið hrifinn af. Ég hef aldrei tekið undir þau áhersluatriði sem lúta að því að línuívilnunin sé með þeim hætti að þeim sé umbunað sem nýta ekki nýjustu tækni við að gera út, að menn borgi (Forseti hringir.) fyrir að beita með höndum og vinna verkin í landi í stað þess að vinna þau með einfaldari og betri hætti úti á sjó.