139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:03]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Við komum saman í kvöld til að ræða þingstörfin og stjórnmálaástandið í lok vetrar og á hálfnuðu kjörtímabili. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur á liðnum missirum unnið dyggilega í samræmi við samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna og miðað vel. Í langflestum málum sem afgreidd hafa verið á yfirstandandi löggjafarþingi eiga flokkarnir fimm sem hér eiga sæti samleið. Síðastliðin tvö ár hafa ekki verið áfallalaus, hvorki fyrir ríkisstjórn né Alþingi og ef til vill ekki við öðru að búast á þeim tímum sem við lifum. Í mínum huga skiptir mestu að í samstarfi missi fólk ekki sjónar á hinum stóru markmiðum og málum og láti dægurþras um smáatriði og hefðbundin leiðindi ekki slá sig út af laginu.

Við erum 320 þúsund sem byggjum þetta land. Við höfum borið gæfu til að standa saman þegar stóráföll hafa dunið yfir — jarðskjálftar, snjóflóð, aflabrestur, eldgos — og þannig sýnt hvað í okkur býr. Reynsla aldanna býr í erfðaminninu. Af formæðrum okkar höfum við lært og af biturri reynslu að búa okkur undir náttúruhamfarir. Hamfarir af mannavöldum eins og hrunið, banka- og gjaldeyriskreppa með tilheyrandi samdrætti í efnahagslífi, kjaraskerðingu og atvinnuleysi hafa hins vegar reynst okkur öllum erfitt viðfangsefni, enda höfum við enga viðlíka reynslu þótt við höfum marga fjöruna sopið í efnahagsmálum.

Það er hollt að hafa þetta í huga þegar hrakspár og bölmóður eru það eina sem fólk hefur til umræðunnar að leggja. Við höfum þrátt fyrir allt náð undraverðum árangri á liðnum tveim árum, árangri sem stjórnvöld og fjölmiðlar erlendis líta til og tala um með virðingu.

Forseti. Það er undursamlegt að fylgjast með frelsisbylgjunni sem nú fer um Miðausturlönd og Norður-Afríku. Í Túnis, Egyptalandi, Líbíu, Barein, Jemen og Sýrlandi krefst hinn almenni borgari frelsis og lýðréttinda eftir áratugakúgun. Harðstjórarnir víkja einn af öðrum. Dagar þeirra eru taldir, líka þeirra sem beita samlanda sína pyndingum og öðru ofbeldi. Í arabalöndunum krefst fólk hinna borgaralegu réttinda sem við teljum sjálfsögð, en auðvitað eru þau það ekki. Skoðana- og tjáningarfrelsi eru að sjálfsögðu efsta krafan. Það vekur athygli mína að rétturinn til þess að stofna stjórnmálaflokk er það líka. Það er umhugsunarvert að þar sem fólk hefur búið við pólitíska kúgun og ríkisofbeldi veit það sem er að stjórnmálahreyfingar og félagasamtök hvers konar eru grundvallarstoðir í öllum lýðræðisríkjum.

Ungur maður sem tók þátt í að rita nýja stjórnarskrá fyrir Túnis sagði sem svo að lýðræðið ætti ekki að ganga út á að sigra með rothöggi, frú forseti. Ég er ekki frá því að umræðuhefð og samskipti stjórnmálamanna hér á landi hafi lengst af farið fram í hnefaleikahringnum, að gera bókstaflega út af við andstæðinginn og niðurlægja hann sé fullnaðarsigur, að samningar og málamiðlanir séu merki um veiklyndi. Okkur er lífsnauðsynlegt að snúa af þeirri braut.

Við sem hingað höfum verið kosin verðum að horfast í augu við þá staðreynd að við erum enn föst á klafa forneskjulegra þinghefða. Þetta er ekki bara spurning um persónur og leikendur, þá hefði væntanlega allt horfið til betri vegar með 70% endurnýjun í röðum þingmanna á einungis tveim árum. Ég heiti á þingmenn alla að stíga skrefið til fulls og breyta lögum og vinnureglum Alþingis svo að sómi sé að. Það er undir hverjum og einum komið að láta gamlar erjur, jafnvel heift, ekki blinda sig í þeim efnum. Sómi löggjafarsamkomu Íslendinga er í húfi.

Frú forseti. Í lok þessa mánaðar verða kaflaskil í samskiptum okkar við Evrópusambandið þegar eiginlegar aðildarviðræður Íslands við ESB hefjast. Nú ríður á að þing og þjóð standi saman um að ná hagstæðum samningum. Við megum ekki láta það henda að pólitískar deilur innan lands dragi úr samstöðu okkar og sannfæringarkrafti við samningaborðið.

Margt góðra framfaramála hefur verið afgreitt á þessu yfirstandandi þingi. Ég nefni örfá. Fyrstu heildarlög um fjölmiðla voru samþykkt á Alþingi í vetur. Lögin hafa að geyma mikilvæg ákvæði sem treysta stoðir hlutlægrar og faglegrar fjölmiðlunar í landinu í þágu almennings, um sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum, gegnsæi eignarhalds, réttarbætur til handa blaða- og fréttamönnum og vernd barna gagnvart auglýsingum, svo fátt eitt sé nefnt.

Í annan stað var sögulegt skref stigið í vor með samþykkt laga um íslenska tungu og táknmál. Það er í fyrsta sinn tryggð lagaleg staða íslenskunnar sem þjóðtunga landsmanna og jafnframt fær táknmálið langþráða viðurkenningu sem fyrsta mál þeirra sem þurfa á því að halda til tjáningar og samskipta.

Þá vil ég nefna að afar mikilvæg þverpólitísk samstaða náðist um tillögu um menntum og atvinnusköpun ungs fólks sem miðar að því að samþætta menntastefnu og atvinnustefnu stjórnvalda að starfsnámi í menntakerfinu. Í samráði við aðila vinnumarkaðarins á að verja 7 milljörðum kr. til átaksins Nám er vinnandi vegur og opna framhaldsskólana frá og með komandi hausti fyrir öllum umsækjendum yngri en 25 ára. Það er án nokkurs vafa besta leiðin til þess að taka á langtímaatvinnuleysi ungs fólks, en við vitum að 75% ungs fólks sem er atvinnulaust og hefur verið atvinnulaust í meira en sex mánuði hefur einungis lokið grunnskólaprófi.

Virðulegur forseti. Við þurfum að opna landið fyrir alþjóðlegum viðskiptum og erlendum fjárfestingum í öllum atvinnugreinum, ekki bara sumum. Við viljum að umheimurinn viti sem er að Ísland hefur aldrei lent í greiðslufalli, að hrunið var gjaldþrot þriggja banka í einkaeigu og að skuldastaða Íslands er sjálfbær. Áætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins rennur sitt skeið í haust. Nú eru því fram undan þau tímamót að Ísland þarf eitt og sjálft að reisa trúverðugleika hagstjórnar í landinu. Það gerum við einungis með festu, aga og skýrri hagstjórnarstefnu. Það verður ekki vandalaust, en við verðum að herða okkur enn ef duga skal til að koma fjárfestingu af stað í landinu, hindra verðbólguskot og tryggja nýjan hagvöxt í sessi.

Góðir landsmenn. Það er eðlilegt fyrir okkur að horfa til baka til þess hvaða leiðir hafa áður reynst Íslendingum best til að vinna á kreppu og komast fram. Aðild Íslands að EFTA var slíkt skref á sínum tíma. Nú vitum við að aðild að Evrópusambandinu yrði okkur lyftistöng. Það er eðlilegt að margir Íslendingar hugsi til þess af ákveðinni varkárni í heimi sem virðist viðsjárverðari en oft áður. En nauðsyn bætts og styrkari gjaldmiðils fyrir verðstöðugleika og lífskjör í landinu, nánari tengsl við helstu viðskiptaríki og þau tækifæri til nýsköpunar og þróunar innviða, atvinnuvega, sveitarfélaga og samfélagsþjónustu af öllu tagi sem skapast með aðild, eru þess virði að grípa þau. Ísland verður að auka samkeppni og nýsköpun í atvinnulífinu. Við verðum að hugsa og horfa til lengri framtíðar en við erum vön að gera. Við viljum að börnin okkar velji Ísland vegna fjölbreyttra og spennandi starfa, vegna góðrar menntunar, vegna opins samfélags og vegna framsækinnar menningar. Þar stendur valið. Við verðum að hafa viljann til að skapa bjarta og heillaríka framtíð. — Góðar stundir.