139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[19:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið er þetta mál samkomulagsmál í allsherjarnefnd, kemur til vegna óska frá kirkjuþingi og við í allsherjarnefnd töldum rök fyrir því að fallast á þá beiðni sem kom frá kirkjuþingi fyrir milligöngu hæstv. innanríkisráðherra, áður kirkjumálaráðherra.

Það er kannski fyrst og fremst eitt atriði sem varð til þess að ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Reyndar er annar hv. nefndarmaður, Mörður Árnason, einnig með fyrirvara en ég er ekki alveg viss um að fyrirvari hans sé af sama tagi og minn. Ég vil að minnsta kosti gera grein fyrir mínum sem stafar af því að ég vildi árétta og undirstrika með honum að einungis væri um tímabundna heimild að ræða, þ.e. annars vegar í árafjölda, að bara á næstu árum væri heimilt að beita þessari heimild, og hins vegar að heimildin yrði ekki notuð nema í takmarkaðan tíma í hverju tilviki fyrir sig. Þetta tel ég mjög mikilvægt að árétta vegna þess að þrátt fyrir að kirkjan sé auðvitað sjálfstæð um sín mál að mörgu og miklu leyti þarf hún engu að síður líka að lúta lagaramma frá Alþingi. Þar fannst mér ástæða til að árétta þetta, þ.e. þetta tímabundna gildi og tímabundna gildissvið einstakra ákvarðana á þessu sviði, vegna þess að sú staða kann að koma upp að skoðanir geti verið skiptar milli aðila innan kirkjunnar. Þá er ég fyrst og fremst að hugsa um annars vegar yfirstjórn kirkjunnar sem getur haft aðrar hugmyndir um hvar eigi að beita sparnaði, aðhaldi, sameiningu og slíku og hins vegar sóknarbarnanna sjálfra sem mér finnst líka eiga rétt í þessu samhengi.

Ég legg áherslu á að þarna sé ekki hægt að taka varanlegar ákvarðanir á grundvelli þeirra breytinga sem hér er mælt fyrir um, hugsanlega í andstöðu við sóknarbörn, og tel rétt að þarna sé sérstaklega áréttað að huga þurfi að sjónarmiðum sóknarbarna heimamanna í hverju tilviki fyrir sig. Að sönnu geta þetta verið mjög viðkvæm mál. Það getur verið mjög viðkvæmt í einstökum byggðum, hugsanlega fámennari byggðum, að lenda í þeirri stöðu að ef prestur hverfur á braut, forfallast, deyr eða fer á eftirlaun, fái viðkomandi byggðarlag ekki prest í staðinn heldur sé þess í stað sett undir einhvern annan prest, nágrannaprest. Ýmsar aðstæður geta gert þetta viðkvæmt. Þess vegna er mikilvægt að ráðstöfun af þessu tagi sé fyrst og fremst bráðabirgðaráðstöfun þangað til gengið hafi verið varanlega frá málum.

Þetta fannst mér rétt, hæstv. forseti, að árétta í þessu.

Ég vildi líka nota tækifærið til að vekja athygli á öðru sem auðvitað snertir sóknirnar líka. Í þeim samdráttaraðgerðum sem gripið hefur verið til af hálfu hins opinbera á undanförnum tveimur, þremur árum hefur hagur sóknanna verið skertur verulega. Ríkið tekur meira til sín af sóknargjöldum en áður og við þingmenn höfum heyrt í fjölmörgum, bæði prestum og virkum sóknarmeðlimum, sóknarnefndarmönnum og öðrum, sem hafa vakið athygli á því að þessi niðurskurður á þeim sóknargjöldum sem renna til safnaðanna hafi fyrst og fremst komið niður á ýmsu félagsstarfi og ýmissi þjónustu sem sóknirnar veita sem er hvað sem öðru líður afar mikilvæg í sóknunum og byggðarlögunum, mikilvæg í sveitunum og hverfunum. Það er barnastarf, starf fyrir eldri borgara, kórastarf og fleira þess háttar sem er gríðarlega mikilvægt í samfélaginu, mikið og öflugt starf sem hefur verið rekið á vegum kirkjunnar og safnaðanna, en sá niðurskurður sem þarna hefur átt sér stað hefur virkilega komið við það starf. Við fjöllum ekki um það í þessu máli, hæstv. forseti, en ég vildi nota þetta tækifæri til að koma þessu sjónarmiði á framfæri vegna þess að þetta er nokkuð sem við þurfum að hafa í huga þegar við undirbúum fjárlög fyrir næsta ár. Ég bið hv. þingmenn að hafa það í huga, bæði þá sem eiga sæti í fjárlaganefnd og aðra, að gæta þess að láta af þeirri viðleitni og tilhneigingu sem hefur verið síðustu tvö, þrjú árin, a.m.k. tvö, að klípa sífellt stærri sneið af hinum sérstaklega eyrnamerktu sóknargjöldum og taka í hinn almenna rekstur ríkisins. Ég er sannfærður um að það fé sem rennur til sóknanna með þessum hætti nýtist vel og kunni að spara ýmislegt í öðrum útgjöldum hins opinbera á öðrum póstum.