139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[20:57]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Fyrst varðandi trúboðið, sem ég nefndi, sem hefur því miður átt sér stað í sumum skólum. Mér finnst mjög mikilvægt að kennd verði trúarbragðafræði og trúarbragðafræðsla verði skýrt afmörkuð og kennd að verulega miklu leyti þannig að börn skilji trúarleg tákn, trúarleg menningargildi og sérstök áhersla verði lögð á kristna trú að sjálfsögðu. Við erum flestöll kristin í þessu landi. En þessi fræðsla á að vera í höndum kennara. Hún á ekki að vera í höndum presta og það er mjög erfið staða þegar trúarhreyfingar í landinu eru í samkeppni um að komast inn í skólastofurnar til að tala við börnin okkar. Við eigum að láta þetta vera í höndum fagmenntaðra kennara sem núna fá fimm ára fræðslu í það hvernig eigi að koma skilaboðum til skila. Það á að vera í höndum þeirra, ekki presta, mér er alveg sama hvaðan þeir koma. Ég hef alls ekkert á móti prestunum, þeir eiga að vera í sínum kirkjum, eiga að vera í sínum söfnuðum; þeir eiga ekki heima í skólastofunum. Þar eru kennararnir til staðar.

Varðandi Nýja testamentið. Gott starf sem þar hefur verið unnið. Því hefur verið dreift í skólum landsins. En nú horfir þingmaðurinn ekki á það samfélag sem við búum í. Ég nefndi hér áðan að einn af hverjum fimm Íslendingum er ekki lengur í Þjóðkirkjunni. Fjöldi Íslendinga og fjöldi barna í skólum er ekki kristinn. Eigum við að afhenda þeim Biblíuna? Hvers konar skilaboð eru það frá skólayfirvöldum að fara inn í skólana og afhenda þessum börnum Biblíuna? Látum það gerast í þeim söfnuðum sem foreldrar þeirra eru, það er langeðlilegasti hluturinn. Þannig á að vinna þetta mál, ekki trúboð í skólunum.