139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[21:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir í þessum efnum. Ég held að mjög mikilvægt sé að við sýnum ákveðna varðstöðu þarna og gætum okkar. Nú er vissulega á það að líta að þessi mál, hvað eigum við að segja, tengsl skóla og kirkju, trúarbragðafræðsla og þess háttar hefur alveg örugglega breyst mjög mikið á síðustu áratugum. Ég býst við að hv. þingmaður sem er fyrrverandi menntamálaráðherra hafi kynnst því m.a. þegar breytingar hafa verið gerðar á skólakerfinu, námskrám og öðru að þar hefur verið um verulega breytingu að ræða. Ég hygg að þegar ég gekk í barnaskóla hafi ég fyrst og fremst lært biblíusögur en börnin mín eru að læra trúarbragðafræði með kynningu á hinum ýmsu trúarbrögðum. Ég held að það sé mikið fagnaðarefni að við erum að breikka sjóndeildarhringinn að því leyti.

Kveikjan að þessari umræðu eru tillögur hjá mannréttindaráði Reykjavíkur þar sem mér finnst og mörgum öðrum að farið sé of langt. Þess vegna bregðast menn til varnar. Þess vegna setja menn hælana í og neita að samþykkja það sem þar er á ferðinni, (Gripið fram í.) ekki vegna þess að menn vilji hverfa til baka 20 eða 50 ár aftur í tímann að einhverju leyti, heldur vegna þess að menn vilja ekki ganga jafnlangt og meiri hluti mannréttindaráðs er með tillögur um, meiri hluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins í mannréttindaráði.

Þetta er kannski bara smá birtingarmynd af stærri átökum eins og hv. þingmaður er í máli sínu að vísa til. En þarna finnst mér að við verðum að draga einhverja línu (Forseti hringir.) í sandinn og gæta okkar að fara ekki yfir.