139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

virðisaukaskattur o.fl.

898. mál
[15:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp sem hv. efnahags- og skattanefnd flytur til að breyta virðisaukaskatti og reyna að samræma það betur. Það sló mig þó áðan þegar hv. þm. Pétur Blöndal fór yfir þau atriði sem út af standa, þær glufur sem munu hugsanlega myndast við setningu þessara laga. Ég hvet því hv. efnahags- og skattanefnd til að fara mjög vel yfir málið á milli umræða ef hægt er að bregðast við því sem hv. þm. Pétur Blöndal benti á.

Mér fannst líka áhugavert að heyra hv. þm. Pétur Blöndal tala um tollanúmerin. Það væri mjög æskilegt að hv. þingmaður færi vel yfir það efni því að mér er mjög minnisstætt þegar sykurskattinum var breytt fyrir nokkru, þá slæddist inn tollanúmer sem mig minnir að hafi verið um umfelgun á hjólbörðum. Ég held því að það sé vissara fyrir hv. nefnd að fara mjög vandlega yfir þessi mál.

Ég fagna því sem fram kom í ræðu hv. þm. Helga Hjörvars, formanns efnahags- og skattanefndar, þegar hann boðaði hugsanlega fleiri breytingar og nefndi sérstaklega varmadælur, eins og kom einnig fram hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Það er mikið réttlætismál fyrir þau 10% þjóðarinnar sem greiða hátt orkugjald og tel ég mjög mikilvægt að það verði skoðað sérstaklega. Um 32 þúsund manns búa við þau skilyrði að þurfa að borga hátt í þrefalt hærra gjald fyrir að hita upp húsin sín en þeir sem hafa aðgang að hitaveitu. Á undanförnum árum hefur dregið úr niðurgreiðslum um leið og rafmagn hefur hækkað alveg gríðarlega mikið og því er mjög mikilvægt að það mál verði skoðað, bæði til að bæta búsetuskilyrðin og til að létta undir með þeim sem búa við þessar aðstæður. Það eru gígantískar upphæðir sem margt fólk á landsbyggðinni þarf að greiða til að hita upp húsin sín og þegar við höfum svona ríkisstjórn í landinu sem gerir ekkert annað en að skerða ráðstöfunartekjur og kjör almennra borgara er það farið að taka allverulega á.

Mér varð hugsað til þess undir ræðunum áðan að ég sá viðtal við framkvæmdastjóra í innflutningsfyrirtæki, Bjarna Ágústsson, sem benti á að í raun og veru tapaði ríkissjóður á því að hafa skattlagningu og tollalöggjöf sem snýr að svokölluðum ipodum. Þessi tæki væru flutt inn í staðinn fyrir að selja þau á skikkanlegu verði hér heima og niðurstaðan væri í raun sú að ríkissjóður tapaði um 100 millj. á ári, ef ég man það rétt. Það er mjög mikilvægt að menn gleymi sér ekki algerlega í skattpíningarstefnunni eins og þeir hafa gert undanfarið. Það er mikilvægt að menn skoði hver heildaráhrifin verða fyrir ríkissjóð.

Það er líka ágætt að rifja upp í þessari umræðu þegar farin er sú leið að reyna að samræma þessa hluti og gera þá markvissari að stundum heppnast verkefnin vel, t.d. átakið Allir vinna. Þar fær fólk sem fer í endurbætur á húsnæði sínu endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnulaunum. Það hefur gefist vel að mati þeirra sem um það hafa fjallað. Meira að segja hafa fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna farið yfir það í ræðustól hversu mikilvægt það er. Það er þá akkúrat í andstöðu við það sem annars kemur fram í málflutningi þeirra og skattpíningu sem skilar í raun litlu fyrir ríkissjóð. Verkefni eins og Allir vinna eykur umsvifin og fjölgar störfum hjá því fólki sem mest þarf á því að halda eftir hið mikla fall sem varð í byggingargeiranum. Það er mjög mikilvægt að hlúa að þeim störfum sem þó er hægt að halda uppi þar.

Það er líka ágætt að rifja það upp í þessari umræðu fyrir haustið þegar menn eru farnir að tala um að nú eigi kannski að fara að hækka skattana enn þá meira eða finna upp nýja skatta að það er búið gera 100 breytingar á skattkerfinu á um þremur árum, sem segir kannski allt sem segja þarf um þessa ríkisstjórn. Við gerð síðustu fjárlaga er mér mjög minnisstætt þegar sett var inn skattahækkun á einstaklinga upp á 11 milljarða. Mönnum fannst það nánast ekki vera neitt. En hverjar voru afleiðingarnar? Þær voru að ráðstöfunartekjur heimilanna á landinu minnkuðu um 8,7 milljarða. Og það sem verra var, eða alla vega ekki skárra, var að lán heimilanna hækkuðu um tæpa 16 milljarða vegna verðtryggingarinnar við að ná inn þessum 11 milljörðum í ríkissjóð. Svo á eftir að koma í ljós hvort það hafi tekist. Ég verð að viðurkenna að mér finnst margir hv. stjórnarliðar vera fyrir löngu orðnir algerlega veruleikafirrtir í skattpíningu ríkisstjórnarinnar. Ég furðar mig á því oft og tíðum að þeir hv. stjórnarþingmenn sem þykjast vera kratar skuli alltaf vera með hæstv. ríkisstjórn á einhverju skilorði og segjast ekki taka þátt í frekari skattpíningum. Þeir segja að menn verði að fara að snúa dæminu við, skapa hagvöxt og störf til að fólk geti séð fyrir sér og sínum. Þeir eru alltaf með ríkisstjórnina á skilorði og þeir hafa sjálfir lýst því yfir opinberlega í fjölmiðlum. En alltaf fjölgar þeim vikum sem þeir gefa ríkisstjórninni og aldrei dregur til tíðinda, skilorðið er alltaf framlengt. Það er fyrir löngu komið nóg af skattpíningu ríkisstjórnarinnar. Það er líka ágætt að rifja það upp, þegar stjórnarliðar hæla sér af því að ríkisstjórnin hafi náð tökum á ríkisfjármálum, að við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 gerði hæstv. ríkisstjórn hvað? Hún lagði til að samþykkt yrði í þinginu að fá fyrir fram greidda skatta hjá stóriðjunni í landinu upp á 3,6 milljarða kr., 1.200 millj. á ári 2010, 2011 og 2012. Svo á að greiða það fé til baka árið 2013 þegar þessi hæstv. ríkisstjórn er farin frá völdum. Vinnubrögðin eru öll á sama veg.

Það er líka athyglisvert sem fram kom í fréttum fyrir stuttu í viðtali við mann sem rekur bifvélaverkstæði. Hann sagði að hann gæti haft nóg að gera, unnið meira um helgar og á kvöldin, en að það væri mjög erfitt að fá starfsmenn til að vinna vegna skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar, að fólk sæi sér ekki bara nógu mikinn hag í því að vinna lengri vinnutíma. Svo hafa menn kvartað yfir því í þessari sömu atvinnugrein að nú sé mjög mikið um að fólk sé farið að vinna á svörtu í bílskúrum á kvöldin og um helgar og jafnvel á virkum dögum, en ekki sé hægt að fá fólk til að vinna þessa vinnu löglega. Það eru afleiðingarnar sem voru fyrir séðar. En hvað þarf til að opna augu hæstv. ríkisstjórnar? Ég veit ekki hvað þarf til þess.

Síðan koma hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra sem eru núna útskrifuð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með árangur sinn í ríkisfjármálum. Þá er ágætt að rifja það upp hvernig hann er fenginn. Það gaf rosalega mikinn árangur að reka ríkissjóð með því að fara eingöngu í vasa skattborgaranna, þ.e. að hækka álögurnar á fólkið og fyrirtækin í landinu. Það gaf rosalega mikinn árangur að taka ákvörðun um það á þingi að hækka skattprósentuna, að fá bara meiri tekjur frá vinnandi fólki. Það er rosaárangur eða hitt þó heldur, það er akkúrat enginn árangur. Maður nær bara í tekjurnar frá einstaklingunum í stað þess að búa til hagvöxt og skapa störf. Það hefur algerlega misfarist. Það er mjög slæmt. Eins og við, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd sl. haust, bentum á gerði hæstv. ríkisstjórn aðför að eldri borgurum og öryrkjum í þessu landi. Þær eru gríðarlega alvarlegar. Í ljós kom að það þurfti að leiðrétta það í fjáraukalögunum um 11 milljarða sem menn færðu til í bótakerfinu vegna þess að þá var tekjutengingin farin að bíta það mikið í. Það kom berlega í ljós. Ég man mjög vel eftir greiðsluþátttöku eldri borgara á dvalarstofnunum. Reiknað var með um 370 millj. kr. þar í fjárlögum þessa árs en niðurstaðan var í kringum 1.200. Það var rúmlega þreföldun á greiðsluþátttöku aldraðra í gjöldum vegna vistar á hjúkrunarheimilum og dvalarheimilum þannig að það er víða farið að bíta í. Ekki eru eldri borgarar og öryrkjar aflögufærir en það var samt eitt fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar sem tók við á vordögum 2009 að leggja fram frumvarp þar sem var vegið að því fólki.

Það er annað sem er slæmt — það er reyndar nánast allt slæmt hjá þessari ríkisstjórn sem viðkemur skattamálum — það er að hugsa sér að á einungis þessum þremur árum sé búið að gera um 100 skattkerfisbreytingar — 100 breytingar. Það er búið að flækja kerfið svo mikið að það skilur það varla nokkur einasti maður. Það sem á eftir að koma á daginn og var varað mjög við þegar menn fóru í þessar breytingar og hefur allt of lítið verið rætt að mínu mati, er hvað allar þessar breytingar kostuðu; að breyta einföldu góðu skattkerfi yfir í það „monster“ sem það er í dag. Það kostaði óhemjupeninga, það kostaði tugi og hundruð millj. kr. að breyta tölvubúnaði og forritum.

Það sem er líka að gerast núna og á eftir að koma betur í ljós er að það munu verða meiri afföll af þeim sköttum sem eru innheimtir eftir á. Við því var einmitt varað mjög af þeim sem komu og fjölluðu um þessi mál hjá efnahags- og skattanefnd, ég las álit þeirra mjög vel. Það er því ekki allt komið í ljós þegar menn áætla skatttekjur sínar enda eru þetta orðnar gríðarlega háar tölur. Óinnheimtar skatttekjur eru komnar á annað hundrað milljarða þannig að menn eru ekki farnir að fá neitt heim í hlöðu. Það er það sem mér finnst að menn þurfi að ræða miklu betur í umræðu um skattkerfið og skattkerfisbreytingarnar. Það hefur líka mjög letjandi áhrif á fólk sem er í vinnu og tekur að sér meiri vinnu því að það skilur það lítið eftir. Það er ekki hægt að nefna eitt einasta atriði sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki fundið til að skattpína fólk og fyrirtæki, enda er hún með marga sérfræðinga til að kanna hvernig í ósköpunum hægt sé að skattleggja fólk meira og meira. Þótt skattpíningin sé þegar komin út fyrir öll velsæmismörk í þeim efnum þá tala sumir stjórnarliðar um hvernig þeir geti hækkað skattana á fólkið í landinu. Það er orðið algerlega óþolandi að mínu viti og maður heyrir það víða að fólki finnst það. Ég hef ekki heyrt það frá einum heldur mörgum. Það er búið að hækka bensínskattana. Það er alveg sama hvað það er. Þegar fólk er farið að leggja saman og reikna út hverjar ráðstöfunartekjurnar eru — það þarf kannski að keyra í vinnu 10–20 km og fara með börnin á leikskólann — eru þær orðnar miklu minni en atvinnuleysisbætur. Hvers konar endemisvitleysa er þetta eiginlega? Hvernig ætlum við að komast upp úr þessu hjólfari? Við verðum að fara að skapa störf til að fólk fái vinnu og við höfum fullt af tækifærum til þess. Við höfum flutt um það tillögur, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á þingi. Þingflokkurinn lagði til að auka aflaheimildir til að skapa störf og verðmæti, útflutningstekjur. Nei, það mátti ekki gera það þó svo að það væri vel innan viðmiðunarmarka og miðað við þá aflareglu sem í gildi var.

Það er alveg sama þegar maður kemur út á landsbyggðina og nánast hvert sem er, fólk sem skynjar ástandið í sjónum í kringum landið skilur ekki hvers vegna ekki má veiða meira. Hvenær eigum við þá að gera það? Menn eru alltaf að tala um að byggja upp einhvern þorskstofn, það er hægt að veiða úr honum 300 þúsund eða 400 þúsund tonn fram í tímann og hann hefur ekki verið sterkari í áratugi. En það má ekki veiða hann. Nei, það á bara að hækka skattana, það eru lausnirnar. Fólk má ekki bjarga sér, alls ekki. Enda er hæstv. ríkisstjórn líka í stríði við allt og alla í landinu. Það er alveg sama hvort það er verkalýðshreyfingin eða Samtök atvinnulífsins, það er stríð við alla. Það er ekkert að marka það sem hæstv. ríkisstjórn skrifar undir, hún skrifar undir stöðugleikasáttmála en það skiptir engu máli. Haft er eftir einstaka þingmönnum að þeir hafi svo sem aldrei ætlað að standa við þau ákvæði sem þeir skrifuðu undir þegar þeir eru rukkaðir um efndirnar enda er hæstv. ríkisstjórn ekki aðeins í stríði við allt og alla í landinu heldur á hún líka í innbyrðisdeilum og vígum innbyrðis í eigin þingflokkum.

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þessi ríkisstjórn fari að koma sér frá og hleypi öðrum að sem geta komið landinu og þjóðfélaginu upp úr þeim hjólförum sem við virðumst vera föst í.