139. löggjafarþing — 157. fundur,  5. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[15:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi segja að þetta mál er orðið ansi sundurslitið. Fyrst var það til umræðu fyrir sumarhlé, mikið rætt og tekið fyrir í umhverfisnefnd, svo var það rætt fyrir helgi og nú er það komið aftur á dagskrá þannig að umræðan virkar örugglega nokkuð sundurlaus.

Við ræðum fullgildingu Árósasamningsins og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem á að setja á stofn nú með samruna tveggja nefnda og á að stofna nýja nefnd sem hefur í för með sér mikinn kostnað fyrir ríkissjóð.

Í Árósasamningnum er að finna ýmsar breytingar á lögum sem eiga að tryggja að íslensk löggjöf samræmist samningnum. Samningurinn gengur út á aðgang almennings að réttlátri málsmeðferð, virkum úrræðum til endurskoðunar og ákvörðun stjórnvalda um framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Segja má að þessi samningur sé sáttmáli milli umhverfis og manna því að verið er að gefa einstaklingum meiri aðild að stjórnvaldsákvörðunum.

Varðandi það sem ég sagði í upphafi kemur þessi úrskurðarnefnd til með að leysa af hólmi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og úrskurðarnefnd hollustuhátta og mengunarvarna. Ekki er í frumvarpinu mjög rætt um hvað sá kostnaðarauki hefur í för með sér. Aðilar renna blint í sjóinn með það hver málafjöldi verður hjá nýrri nefnd en þess ber að geta að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sér nú þegar ekki út úr augum fyrir málafjölda og ekkert fjármagn kemur á móti. Nýja nefndin sem er lögð til í þessu frumvarpi byrjar því með langan hala af eldri málum áður en hægt verður að taka á nýjum málum sem koma fyrir nefndina. Þetta er enn eitt frumvarpið sem ég hef kallað kratavæðingu því að þar kemur fram að fjölga þurfi stöðugildum hjá nefndinni. Ríkisstjórnin hefur ákveðna atvinnustefnu sem er fjölgun opinberra starfa og kemur fram í þessu frumvarpi en ekkert er talað um hvar eigi að taka fjármagn til að halda þessu apparati úti.

Það sem ég hef gagnrýnt við frumvarp þetta er að opna á aðild að íslenskri kærunefnd fyrir utanaðkomandi aðilum. Það var gert með ráðnum hug að hafa aðildina alveg opna. Fulltrúar umhverfisráðuneytisins komu á fund umhverfisnefndar og var djúpt á þessum upplýsingum. Ég spurði ítrekað hvað væri átt með þessari opnu aðild og fyrir rest var það viðurkennt af fulltrúum umhverfisráðuneytisins að heimurinn allur lægi undir. Með þessari opnu aðild getur því umhverfisverndarsinni í Ástralíu, Kanada, Nýja-Sjálandi eða Þýskalandi komið hingað og lagt fram kæru fyrir þessa úrskurðarnefnd og skipt sér með freklegum hætti af innanríkismálum Íslendinga. Það heitir víst hjá ríkisstjórninni að vera fjölþjóðlegur að opna með þessum hætti á kæruaðild erlendra aðila. Þeir eru ekki aðilar málsins og þurfa ekki að sýna á nokkurn hátt fram á að þeir séu tengdir því úrskurðarmáli sem um ræðir. Með þessari leið er verið að breyta íslensku réttarfari. Ég er alfarið á móti því sem í frumvarpinu stendur því að ég sé fyrir mér að okkar veikburða litlu stjórnsýslu væri hæglega hægt að sökkva í kaf með því að opna fyrir þessa heimild.

Í frumvarpinu eru þrjú ákvæði sem falla undir þessa opnu kæruleið og mig langar til að telja þau upp:

Í fyrsta lagi opnar þessi opna kæruleið á þær ákvarðanir sem eru teknar hjá Skipulagsstofnun ríkisins um matsskyldu, samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, og ákvarðanir Skipulagsstofnunar um sameiginlegt umhverfismat og mat á umhverfisáhrifum. Þarna erum við komin með mjög eldfimt efni inn en eins og við vitum hafa ákvarðanir Skipulagsstofnunar valdið miklum deilum á þessu sviði innan lands, hvað þá heldur ef hagsmunaaðilar fá róttæka erlenda aðila í lið með sér til að taka þátt í kærumálum líka.

Í öðru lagi falla undir þetta ákvæði ákvarðanir ýmissa stjórnvalda um að leyfa framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Um aðild að kæru vegna þessara mála fer í dag samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins. Stjórnsýslurétturinn er alveg klár varðandi aðildina að því leyti að einstaklingar og fyrirtæki þurfa að hafa aðild að máli til að geta farið af stað með mál en þarna er verið að víkka heimild til kæru.

Í þriðja lagi eru ákvarðanir Umhverfisstofnunar um að leyfa sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera og ákvörðun um að leyfa að þær séu markaðssettar eða vörur unnar úr þeim samkvæmt þessu frumvarpi. Mér segir svo hugur að þetta sé ef til vill umdeildasta ákvæðið í þessum lögum því að allt varðandi erfðabreyttar lífverur er mjög viðkvæmt í heiminum öllum og við getum séð fyrir okkur hvað gæti gerst hér á landi þegar aðildin verður orðin opin.

Um leið og aðili getur farið með mál fyrir úrskurðarnefnd sem úrskurðar endanlega, eins og lagt er til að þessi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi vald til, er hægt að áfrýja slíkum málum til dómstóla landsins ef hægt er að benda á formgalla í úrskurðinum. Í seinni tíð hefur bilið milli formhliðar máls og efnishliðar mjög dregist saman þannig að það er alltaf að verða óljósara hvað eru brot á formreglum og hvað eru brot á efnisreglum.

Með þessu frumvarpi er jafnframt verið að opna leið erlendra aðila inn í dómskerfið okkar og eins og við vitum er það nú þegar á hliðinni vegna fjárskorts. Oft og tíðum sér núverandi ríkisstjórn ekki fyrir hverjar afleiðingar lagasetninganna eru í þeim frumvörpum sem hún leggur fram. Ég hef það á tilfinningunni að þetta mál sé ekki fullrætt eða það vanti í það minnsta framtíðarsýnina í frumvarpið til að ríkisstjórnin átti sig á því hvert stefnt er með því.

Vísað er í hæstaréttardóm í frumvarpinu sem mig langar að fara yfir til að útskýra út á hvað þessi opna regla gengur. Reglan kallast á latínu actio popularis sem er þessi opna kæruheimild. Vísað er í hæstaréttardóm nr. 20/2005 sem sneri að kæruaðild vegna útgáfu starfsleyfis til handa Reyðaráli og það vildi svo vel til að það var fyrrverandi þingmaður sem höfðaði þetta mál á hendur íslenska ríkinu, Alcoa og Fjarðaáli og gagnsök, Hjörleifur Guttormsson heitir hann, kunnur umhverfisverndarsinni. Í málinu var deilt um lögmæti umhverfismats og veitingar starfsleyfis álvers í Reyðarfirði og höfðu verið uppi áætlanir um að reisa álver í tveimur áföngum með 420 þús. tonna framleiðslugetu á ári ásamt rafskautaverksmiðju og farið hafði fram lögboðið umhverfismat vegna þessarar framkvæmdar. Síðar var fallið frá þessum áformum áður en starfsleyfið hafði verið gefið út og þá var ákveðið að óska eftir að reisa einungis eitt álver með 322 þús. tonna framleiðslugetu á ári og falla frá áformum um rafskautaverksmiðju. Á þeim grunni komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að fara í nýtt umhverfismat vegna hinna breyttu áforma vegna þess að þarna var verið að fara í minni framkvæmdir en gert var ráð fyrir í upphafi. Þá kærir H, eins og Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi þingmaður er nefndur í dómnum, niðurstöðuna til umhverfisráðherra sem staðfestir niðurstöðuna með úrskurði. Síðan veitir Umhverfisstofnun starfsleyfi o.s.frv. og deilur verða um að ekki verði hægt að minnka álverið nema fá nýtt umhverfismat. Svo vöknuðu spurningar um það hvort hann væri aðili að málinu því að samkvæmt íslenskum stjórnsýslurétti er það skilyrði að sá sem höfðar mál fyrir dómstólum þurfi að vera aðili að málinu og hafa þann málskotsrétt sem tilheyrir til að geta farið með málið áfram.

Þá langar mig til að lesa upp akkúrat það sem frumvarpið sem við ræðum nú fjallar um, með leyfi forseta:

„Varðandi síðari kröfu H var talið að samkvæmt 2. málsgrein 32. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, mætti kæra ákvarðanir Umhverfisstofnunar um veitingu starfsleyfis til umhverfisráðherra. Ekki væri í lagagreininni tekið fram hverjir nytu aðildar að slíkum kærum og þótti verða að skýra ákvæðið með hliðsjón af reglum stjórnsýslulaga en almennt væri viðurkennt samkvæmt stjórnsýslurétti að aðilar máls gætu þeir einir verið sem hafi verulegra og einstaklegra hagsmuna að gæta af stjórnvaldsákvörðun. H átti heimilisfesti í Fjarðabyggð en heimili hans var langt frá hinu fyrirhugaða álveri og taldist hann því ekki geta reist aðild sína á reglum grenndarréttar og ekki var talið að hann hefði sýnt fram á að hann ætti annarra einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta um byggingu álversins. Ekki breytti neinu í þessu sambandi að H hafi notið réttar samkvæmt lögum nr. 7/1998 til að gera athugasemdir við tillögur Umhverfisstofnunar um starfsleyfi. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu H um ógildingu á þeirri ákvörðun umhverfisráðherra að vísa frá kæru …“

Hæstaréttardómur á sviði umhverfisréttar tók á málinu. Viðkomandi aðili hafði ekki aðild að málinu, honum var málið óskylt. Nú er lagt til í frumvarpi þessu að ekki einungis Íslendingum sé heimilt að ganga inn í þá þrjá liði sem ég taldi upp varðandi ákvörðun stjórnvalds hér á landi heldur er það opnað fyrir heiminn allan og þá einstaklinga og þá aðila sem raunverulega hafa nennu og getu til að koma hingað og kaffæra íslenska stjórnsýslu. Ég vara mjög við þessu.

Það er svolítið merkilegt að sjá á bls. 3 í nefndaráliti meiri hluta umhverfisnefndar hve frjálsleg sú túlkun er og sýnir akkúrat þá kratahugsun sem ég er oft að tala um, þ.e. þessa vöntun á því að standa vörð um innlenda hagsmuni þar sem við búum á eyju og verðum að verja okkur sjálf því að ef við gerum það ekki gerir enginn það fyrir okkur. Mig langar til að lesa, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur almenna kæruaðild í þessum tilvikum eðlilega skipan hérlendis. Veldur þar annars vegar að á Íslandi er samfélag fáliðans þar sem þau gildi standa djúpum rótum að virða beri viðhorf og sjónarmið hvers einstaklings, en hins vegar að ekki er um að ræða aðra sambærilega kosti sem styðjist við sérstaka hefð í réttarfari eða stjórnsýslu.“

Þarna er okkar djúpu, góðu og gömlu gildum sturtað niður, hvorki meira né minna. Meiri hlutinn telur að fámenni á Íslandi sé kostur þess að opna kæruaðild fyrir íslenska kærunefnd fyrir heiminum öllum. Þvílík fásinna, frú forseti.

Í nefndaráliti meiri hluta er einnig vísað í hæstaréttardóm sem gengur út á að formreglur endi fyrir dómi. Það er ágætt að meiri hlutinn hafi áttað sig á því að með því að opna aðild allra að þessari úrskurðarnefnd sé verið að opna fyrir heiminn allan og dómstólana líka, ekki bara fyrir kærunefndina.

Úr því að hv. formaður umhverfisnefndar kom upp í atkvæðaskýringu varðandi bráðabirgðaákvæðið áðan og gerði athugasemdir við að ákvæði til bráðabirgða hefðu gengið út á að lögð hefði verið fram breytingartillaga sem ég er aðili að, ásamt hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, vil ég taka það fram að við fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í umhverfisnefnd erum á einu máli um að draga beri 4. gr. til baka, sem kveður á um þessa opnu kæruaðild. Þessi breytingartillaga var lögð fram áðan í 2. umr. og er í fullu gildi þótt hv. formaður umhverfisnefndar hafi gert lítið úr því og sagt sjálfstæðismenn, sem eru á nefndaráliti minni hluta, ekki standa við orð sín. Mig langar til að benda á að það væri ágætt fyrir hv. formann umhverfisnefndar að fara á smánámskeið um hvernig lagasetning fer fram. Fyrst eru lögð fram frumvörp, þau rædd, þau fara til nefnda og því næst er skilað inn nefndarálitum og er þingmönnum heimilt að skila inn breytingartillögum á öllum stigum 2. umr. Þetta er því fullkomlega eðlilegt. Mig langar að lesa breytingartillöguna upp þar sem við leggjum til að 3. mgr. 4. gr. falli niður og eftirfarandi komi í staðinn, með leyfi forseta:

„Kærurétt samkvæmt þessari grein eiga þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök sem eiga varnarþing á Íslandi, enda séu félagsmenn þeirra 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Umhverfisverndarsamtök teljast samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök samkvæmt 2. og 3. málslið skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.“

Undir þetta skrifa Kristján Þór Júlíusson, Birgir Ármannsson og Vigdís Hauksdóttir. Með þessu er því komið á framfæri að raunverulega er svo sem ekkert að því að fullgilda Árósasamninginn og þessa úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fyrir utan hvað stofnun þeirrar nefndar er kostnaðarsöm fyrir íslenska ríkið, en komi þessi breytingartillaga til með að ganga framar þeirri tillögu sem nú er í frumvarpinu og taka gildi þá sé ég fyrir hönd Framsóknarflokksins ekkert að því að styðja þetta frumvarp, en lögvörðu hagsmunirnir og aðildin að kærumálum hér á landi verður að tryggja að átt sé við íslenska aðila. Ekkert ríki sem stendur að Árósasamningnum hefur gengið jafnlangt og ríkisstjórnin leggur til í þessu máli. Það ríki sem kemst næst því er Portúgal og það er kannski ekki ríki sem okkur vestar í álfunni þykir eftirsóknarvert að bera okkur saman við. Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa algerlega hafnað þeirri leið sem hér er farin en frjálslyndi virðist ríkja hjá ríkisstjórninni og ég veit að þetta er mikið hjartans mál hjá Vinstri grænum, jafnvel það mikið hjartans mál að þetta mál er búið að vera á oddinum um nokkra hríð. Það er dapurlegt þegar einn flokkur getur breytt íslensku réttarkerfi. Því til gamans má geta að annað frumvarp liggur fyrir umhverfisnefnd sem snýr að mengunarbótareglunni og þar er lagt til að íslenskum skaðabótarétti verði breytt. Hér liggja því fyrir þinginu tvö frumvörp sem ganga út á að umbylta íslensku réttarkerfi. Mér þykir þetta umhugsunarvert en vinstri flokkana hefur aldrei munað um að fara sínar leiðir hvort sem þeir eru með frumvörp sem stangast á við önnur lög eða stjórnarskrá, eins og hefur komið á daginn og hefur meira að segja sjálfur Hæstiréttur úrskurðað lög frá þessari ríkisstjórn ógild. Ég er að tala um stjórnlagaþingsmálið.

Frú forseti. Það eru að koma gestir á þingpallana og þess vegna hef ég kosið að ljúka máli mínu.