139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég verð eiginlega að hryggja hv. þingmann með því að segja að hann fer með eintómar rangfærslur. Hv. þingmaður ætti að gera sér grein fyrir því. Matvælaverð hér, sérstaklega á matvælum sem framleidd eru hér á landi, er með því lægsta sem gerist í heiminum með tilsvarandi vörur, a.m.k. í Norður-Evrópu. Verð á þessum vörum hefur hækkað minna en á öðrum matvörum. (Gripið fram í.) Úrval hér í kjötborðum og mjólkurvörur er síst minna en í öðrum löndum. Fer hv. þingmaður ekki út í búð? (Gripið fram í.)

Af því að hv. þingmaður (Gripið fram í.) er greinilega mikill aðdáandi Evrópusambandsins (Gripið fram í: Svaraðu spurningunum.) eru vörur sem við flytjum inn frá Bandaríkjunum með mun lægri tolla þegar þær koma hingað en til Evrópusambandsins. Tökum sykurinn — þó að hann sé óhollur. (Gripið fram í.) Fólk verður að halda sig við rétt mál.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um viðbrögð mín við því áliti umboðsmanns Alþingis hvort heimild sé til þess að víkja frá hámarkstollum og breyta þeim eins og hefur verið gert samkvæmt lögum, líklega frá 2005, er það mál í skoðun. Skipaður hefur verið starfshópur viðkomandi ráðuneyta, míns ráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, og reyndar á forsætisráðuneytið þar líka aðild að, þannig að farið verður í gegnum þau mál.

Einhver minntist hér á gúrkur og tómata, það er alveg hárrétt að framleiðsla á þeim hefur aukist en það var fyrst og fremst fyrir það að menn tóku upp raflýsinguna með miklu markvissari hætti en áður. Það var mjög gott.

Já, fæðuöryggi þjóðar er hluti af sjálfstæði hennar. Vissulega erum við háð erlendum aðföngum í þeim efnum en rúmlega 50% af orkuneyslu landsmanna eru innlend framleiðsla. Hún er að vísu sérhæfð, en þeim mun mikilvægara er að standa vörð um hana og þar með um fæðuöryggið. Eins og við vitum er greiðsluafkoma landsins ekki slík að við getum sett íslenska landbúnaðarframleiðslu og matvælaframleiðslu í hættu bara til að opna fyrir takmarkalausan innflutning. (Forseti hringir.)