139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað er ekkert vit í öðru en gera hlé á þessari umræðu þannig að stjórnarflokkarnir geti staðið við fyrirheit sín um að lagfæra málið. Ég er hræddur um að ef meiri hluti þingsins samþykkir frumvarpið eins og það er verði í framtíðinni litið á það sem stórkostleg mistök, hugsanlega einn stærsta liðinn í því að koma í veg fyrir efnahagslega endurreisn landsins á meðan tækifærin voru til staðar.

Með þeirri einangrunarstefnu sem boðuð er í frumvarpinu er verið að festa í sess í þá neikvæðu keðjuverkun sem við höfum upplifað nú í tvö og hálft ár eða rúmlega það. Við verðum að ná að brjótast út úr þessari neikvæðu keðjuverkun, og eins og ég fór yfir hérna áðan eru öll tækifæri til staðar til þess.

Gjaldmiðillinn er lágt skráður. Það kann að vera að hann falli til að byrja með eitthvað meira. En þegar við lítum á grunnforsendur íslensks efnahagslífs, þær auðlindir og þá framleiðslugetu sem hér er til staðar, erum við að framleiða miklu meira en næg verðmæti til að lyfta gjaldmiðlinum aftur. En hann lyftist ekki ef engin fjárfesting fær að eiga sér stað í landinu. Ef menn fá ekki tækifæri til að ráða nýtt fólk í vinnu og framleiða meiri verðmæti, hver þorir að fjárfesta í landi þar sem í gildi eru ströngustu gjaldeyrishöft sem sést hafa frá falli Berlínarmúrsins? Jafnvel þó að stjórnvöld segi: Ja, við erum svo sem búin að loka fyrri fjárfesta inni, en þið, nýju fjárfestar, komið með peningana ykkar og við skulum lofa að hleypa ykkur út. Það trúir enginn slíkum málflutningi, sérstaklega ekki frá ríkisstjórn sem aftur og aftur hefur svikið gefin fyrirheit.