139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[15:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalög. Mig langar í upphafi máls míns að taka undir með þeim sem hér töluðu áðan, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og hv. þm. Pétri Blöndal, um samkomulagið sem náðist um meðferð á þessu máli. Ég vil byrja á því að lesa seinustu klausuna í greinargerð sem lögð var fram á vorþingi en þar segir, með leyfi frú forseta:

„Efnahags- og skattanefnd mun áður en nefndafundir og þingfundir hefjast í september óska eftir lagalegri og hagfræðilegri úttekt á frumvarpi ráðherra og einstökum greinum þess. Meta þarf hvort lögfesting þess veiti Seðlabanka Íslands nægilegan sveigjanleika til að bregðast skjótt við leka í gjaldeyrishöftum samhliða losun þeirra samkvæmt áætluninni. Þá þarf að meta nauðsyn slíkrar lagasetningar með tilliti til væntinga markaðarins um afnám hafta og trúverðugleika áætlunarinnar.“

Þá spyr maður sig óneitanlega hvar þessi vinna sé stödd, frú forseti. Hvar eru þau gögn og sú vinna sem átti að liggja fyrir áður en umræðan sem hér fer fram byrjaði?

Þetta er auðvitað í samræmi við mörg vinnubrögðin hér. Boðað er samráð, boðað er að taka upp ný vinnubrögð og flokkarnir eigi að vinna saman að lausn vandans. Mikið var talað um það í atkvæðagreiðslu í gær, frú forseti, að góður áfangi hefði náðst og allir flokkar hefðu komið að borðinu. Svo er samkomulag sem þetta brotið strax.

Mörgu venjulegu fólki kann að finnast að gjaldeyrishöftin hafi kannski ekki mikil áhrif á daglegt líf þess en með óbeinum hætti hafa þau áhrif á okkur öll. Með óbeinum hætti eru gjaldeyrishöftin mjög slæm fyrir fólkið í landinu. Ég ætla að rekja það hér á eftir í máli mínu.

Gjaldeyrishöftin hafa gríðarlega neikvæð áhrif á uppbyggingu atvinnulífs í landinu. Við heyrum í mjög vaxandi mæli að fyrirtæki séu að flytja starfsemi sína og höfuðstöðvar úr landi. Það alvarlegasta er að gerast núna, frú forseti, að það eru ekki einungis stóru fyrirtækin sem eru að fara heldur eru lítil og meðalstór fyrirtæki einnig farin að velta því fyrir sér að flytja úr landi, eru komin með innflutnings- og útflutningsfyrirtæki starfrækt erlendis og hagnaðurinn látinn myndast í þeim í stað þess að það sé gert í íslensku hagkerfi. Þetta hefur gríðarlega neikvæð áhrif fyrir atvinnulífið, ég nefni atvinnuleysið eins og það er í dag og fólksflutninga burt frá landinu. Síðastliðin tvö ár hafa um 7 þúsund manns farið af landi brott. Þetta eru gríðarlegar tölur. Til samanburðar má geta þess að fyrir 120 árum þegar Íslendingar héldu til Vesturheims fóru um 15 þúsund manns. Á síðustu árum er þannig farinn um helmingurinn af þeim fjölda sem fór til Vesturheims á sínum tíma.

Stærsta ástæðan fyrir því að fólk fer úr landi er atvinnuleysið. Fólk leitar á nýjar slóðir. Fólk leitar þangað þar sem það hefur betri lífskjör og getur náð endum saman. Þess vegna er svo mikilvægt að öll umgjörðin í kringum atvinnulífið sé byggð upp með jákvæðum hætti. Þau skilaboð sem við sendum þeim sem reka fyrirtæki í landinu og ráða fólk til starfa verða að byggja á framtíðarsýn og á einhverjum raunverulegum grundvelli.

Ef við skoðum frumvarpið sem hér er lagt fram er í því verið að festa gjaldeyrishöftin í sessi með lögum. Ef maður skoðar einstakar greinar frumvarpsins og breytingartillögur sem fylgja því getur þetta ekki leitt nema til eins. Við munum á hverju einasta ári, frú forseti, fara dýpra og dýpra inn í vandann í stað þess að vinna okkur út úr honum og hann mun ávallt stækka.

Það er orðið svo að það á að fara að leita á Íslendingum að gjaldeyri þegar þeir koma til landsins. Annars vegar verða hundar sem leita að eiturlyfjum og hins vegar sérstök sveit manna sem mun leita að gjaldeyri hjá fólki sem kemur til landsins. Ef fólk hættir skyndilega við ferð til útlanda þarf það að skila gjaldeyrinum. Hvað mun þetta leiða af sér? Hverjar verða girðingarnar á næsta ári? Hvað ætlum við að gera í því ef einstaklingur fer inn á Amazon og kaupir tvö Rolex-úr og flytur þau til landsins og fer svo utan og selur þau ári seinna? Eða bifreiðar — mun verða tekið á því að menn vinni þannig?

Þetta mun bara kalla á það að í þinginu mun á hverju ári koma frekari löggjöf á þessu sviði þar sem reynt verður eftir mesta megni að girða fyrir lekann sem fylgir gjaldeyrishöftunum. Það er það sem við sjáum gerast. Að vísu hefur aðeins verið dregið í land en engu að síður er alveg ljóst að engin trúverðug stefna er til framtíðar í þessu máli.

Ég vil koma aðeins inn á þætti sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nefndi áðan og eru mjög mikilvægir í þessari umræðu. Það er að um leið og við skoðum gjaldeyrisstefnuna förum við yfir það heildstætt og mjög markvisst hvernig við getum aukið gjaldeyrismyndun í landinu, með því að ýta undir gjaldeyrisskapandi framleiðslu og atvinnustarfsemi, og eins gjaldeyrissparandi framleiðslu og atvinnustarfsemi. Grunnurinn að því að ná að byggja upp til framtíðar og geta með einhverju móti til lengri tíma aflétt höftunum er að við séum sjálfbær hvað þetta snertir.

Menn leggja hér fram áætlanir um hvernig við munum vinna okkur út úr þessum vanda og hvernig eigi að afnema höftin en það trúir enginn þessum áætlunum, ekki einu sinni þeir sem leggja þær fram.

Frú forseti. Hvernig eiga þeir sem reka atvinnustarfsemi í landinu og reka fyrirtækin að trúa því að gjaldeyrishöftin séu ekki komin til að vera á sama tíma og þau eru lögfest í þinginu, á sama tíma og forustumenn ríkisstjórnarinnar og jafnvel þeir sem mæla fyrir frumvarpinu, eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, trúa ekki einu sinni sjálfir á að hægt sé að afnema höftin? Hvernig getum við tekið trúanlega áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna þegar þau skilaboð eru send þingheimi, almenningi og fyrirtækjum?

Talað er um að afnema þurfi höftin en í sömu setningunni er sagt að ekki sé hægt að afnema höftin nema — nema hvað? Nema að við tökum upp evru. Það sé eina leiðin til að afnema höftin (Gripið fram í: Göngum í Evrópusambandið.) og að við göngum í Evrópusambandið. Hvernig getum við þá trúað þeirri áætlun sem lögð er hér fram um afnám gjaldeyrishaftanna? Það er ekki nema von að fjárfestingar á Íslandi séu í algjöru lágmarki. Það er ekki nema von að atvinnuleysi sé að aukast. Og það er ekki nema von að ungt fólk sjái hag sínum best borgið með því að flytja til útlanda. Ég hef miklar áhyggjur af því, frú forseti, að þessi tala brottfluttra Íslendinga sem nú er komin upp í 7 þúsund muni áður en yfir lýkur verða hærri en tala þeirra sem fór til Vesturheims fyrir 120 árum. Það eru ekki nema 7 þúsund manns í viðbót, frú forseti. Daglega berast okkur fréttir af því að ungt fólk sé að flytja af landi brott. Þetta verður mjög dýrt fyrir samfélag okkar. Grunnurinn að því að þetta fólk flytji ekki er umgjörðin í kringum atvinnulífið og grunnurinn undir umgjörðina í kringum atvinnulífið er m.a. mjög stór þáttur eins og peningastefna og hvort við munum horfa upp á gjaldeyrishöft um ókomna tíð.

Af því ég minntist áðan á hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þá er mjög sérstakt að horfa upp á það að æðsti maður efnahagsmála á Íslandi skuli ganga fram eins og hann hefur gert, bæði í innlendum og erlendum fjölmiðlum. Mig langar, með leyfi frú forseta, að vitna í viðtal við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í byrjun ágúst í franska dagblaðinu Le Monde. Þar segir:

„Spurður að því hverjir séu hagsmunir Íslands að því að ganga í ESB segir Árni það vera rökrétt að vera fullgildur aðili að sambandinu. Það dragi úr óstöðugleika okkar og auki samkeppnishæfni. En fyrst og síðast sé hagnaðurinn fólginn í sterkari gjaldmiðli, evrunni, sem muni veita „óendanlega meiri stöðugleika.““

Í sama viðtali og í fleiri viðtölum hefur hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra látið hafa eftir sér að það séu annaðhvort gjaldeyrishöft um aldur og ævi eða evra.

Þetta er vandinn sem við stöndum frammi fyrir í dag en það er ekki vilji til þess að leysa hann. Flestir gera sér grein fyrir því að peningastefnuna þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Margir eru þeirrar skoðunar að það sé jákvætt að taka umræðuna um hvort við eigum að taka upp annan gjaldmiðil. Hins vegar erum við í þeim vanda stödd í dag að við erum búin að læsa okkur ofan í leið Samfylkingarinnar í þessu máli. Við erum búin að læsa okkur ofan í leið stjórnmálaflokks sem einungis nýtur stuðnings rúmlega fimmtungs þjóðarinnar, sem miðar að því að taka upp evru. Á sama tíma fara áhyggjur flestra nágrannaríkja okkar af þeim gjaldmiðli vaxandi.

Það er ekki svo að ekki hafi verið vilji til að ræða þessa gjaldeyrisstefnu til lengri tíma litið. Mig langar að vitna til tillögu til þingsályktunar sem sá sem hér stendur flutti á meðan hann var hluti af þingflokki Vinstri grænna, ásamt hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sem þá var þingflokksformaður Vinstri grænna. Mig langar, með leyfi frú forseta, að lesa upp úr ályktuninni og hvað hún fól í sér:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera víðtæka úttekt á helstu framtíðarkostum Íslands í gjaldmiðilsmálum, sem verði liður í því að renna stoðum undir sjálfbæra þróun íslensks samfélags. Teymi erlendra og innlendra sérfræðinga úr ólíkum áttum og af mismunandi fagsviðum verði fengið til að gera úttektina og skal það:

a. leggja heildstætt mat á kosti og galla íslensku krónunnar sem framtíðargjaldmiðils landsins og útlista þá þætti hagstjórnar og regluverks sem þá þurfa að vera fyrir hendi.“ — Þetta felur í sér gagngera endurskoðun á peningastefnunni, frú forseti.

„b. gera rannsókn á því með hvaða hætti íslenska krónan hefur gagnast eða íþyngt þjóðarbúinu við að vinna sig út úr yfirstandandi kreppu og hagsveiflum fyrri tíðar og til samanburðar rekja reynslu annarra sambærilegra hagkerfa sem hafa lent í harkalegri kreppu en eru hluti af stærra myntsvæði, svo sem evru;

c. leggja heildstætt mat á kosti og galla upptöku annarrar myntar fyrir íslenskt hagkerfi til lengri og skemmri tíma, svo sem evru, bandaríkjadals, norskrar eða sænskrar krónu.“

Frú forseti. Því miður náði þessi tillaga ekki fram að ganga. Fleiri hafa flutt sambærilegar tillögur hér og hefur verið vitnað til þeirra í umræðunni. Það er með ólíkindum að við skulum standa hér, á þessum tímapunkti, þetta löngu eftir hrun bankakerfisins, og hvar eru við? Við erum á byrjunarreit í þessu máli.

Mig langar að vitna til fjölmargra sem rætt hafa um þetta því fyrir tveimur árum kallaði samfélagið eftir umræðu um þessi mál á víðum grunni, án þess menn horfðu svona gríðarlega þröngt á málið. Núna þegar evran er komin í vanda, peningastjórnin í vanda, ríkisstjórnin er að festa gjaldeyrishöft í sessi langt inn í framtíðina, erum við á algjörum byrjunarreit.

Mig langar, frú forseti, að nefna nokkrar greinar sem ritaðar voru árið 2009, því þá var umræðan mjög lifandi og frjó. Hér t..d. grein eftir Kára Arnór Kárason sem birt var á Smugunni 24. mars 2009. Hún ber yfirskriftina „Á að kasta krónunni? Vandaða umræðu í stað gleðipillu.“ Hún fjallar um hvaða möguleika við höfum í þessu efni. Hér er grein eftir Ársæl Valfells og Heiðar Guðjónsson, „Einhliða upptaka er lausn á gjaldeyrisvanda“, birt í Morgunblaðinu 8. janúar 2009. „Tökum upp Bandaríkjadal“, grein eftir Þórlind Kjartansson sem birtist í Fréttablaðinu 8. apríl ágúst 2009. Grein eftir Ragnar Þórisson, „Upptaka norsku krónunnar strax“, í Morgunblaðinu 6. september 2009. „Gæti danska krónan verið svarið?“, grein eftir Bergþór Konráðsson í Morgunblaðinu 21. ágúst 2008.

Svona mætti áfram telja. Það er engin svona umræða í dag.

Þessa umræðu þarf að taka vegna þess að við erum á byrjunarreit. Ræða þarf peningastefnu Seðlabankans, á hvaða vegferð við erum þar og hvaða grundvallarbreytingar við þurfum að gera á henni. Sá sem hér stendur er ekki með svörin á reiðum höndum. En ég fullyrði að þeir sem leggja fram þetta frumvarp í dag og mæla hvað harðast fyrir því eru ekki búnir að líta mjög heildstætt og vítt á þessa hluti. Við þurfum að ræða hvað við ætlum að gera á meðan við erum með íslensku krónuna. Ætlum við að byggja á henni til framtíðar? Hverju þurfum við að breyta í peningastefnu okkar til þess? Ætlum við í framtíðinni að horfa hugsanlega til annarra gjaldmiðla? Hvaða gjaldmiðla? Ég las nýlega mjög áhugaverða grein um möguleikann á því að taka upp fjölmyntahagkerfi vegna þess hve íslenska hagkerfið væri lítið. Það er hellingur af hugmyndum í mótun en ég fullyrði, frú forseti, að við erum að læsa okkur ofan í farvegi sem mun einungis koma niður á atvinnulífinu og fólkinu í landinu. Það er engin heildstæð yfirsýn í þessu máli, ekki nokkur.

Hér munum við, eins og ég hef rakið í máli mínu, á hverju einasta ári reyna að setja fyrir lekann sem fylgir höftunum og grafa okkur dýpra og dýpra niður. Getur verið, eins og sumir hafa nefnt, að það sé gert meðvitað? Getur verið að einmitt þetta slagorð „höft áfram eða evra“ sé slagorð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og fleiri þingmanna Samfylkingarinnar og ekki megi skoða þessi mál og fara að vinna sig út úr þessum vanda vegna þess að þetta er eina slagorðið sem eftir er í slagnum, í baráttu Samfylkingarinnar fyrir því að koma Íslandi í Evrópusambandið þvert gegn þjóðarvilja?

Það er að minnsta kosti ljóst að þeir sem reka fyrirtæki í landinu hafa gríðarlegar áhyggjur af þróun mála. Það er alveg ljóst að í þessu máli sem og öðrum, þegar spurt er hverjar líkurnar eru á því að ungt fólk sé tilbúið að búa áfram á Íslandi og hér verði ekki áfram fólksfækkun, er stefnan í þessum málaflokki gríðarlega mikilvæg.

Í ljósi samkomulagsins sem gert var í vor, og ég byrjaði á að ræða hverju hefði verið lofað í því, vonast ég svo innilega til þess að fólk úr öllum flokkum sjái ljósið og sé tilbúið til að rifja upp það samkomulag og fara eftir því, því það er gríðarlega alvarlegt, frú forseti, ef við erum að festa okkur ofan í þeim farvegi sem þetta frumvarp felur í sér.