139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir einstaklega kröftuga og efnismikla ræðu og þá þætti sem hún fór inn á. Í ræðu minni í morgun var ég með sömu hugrenningar og þingmaðurinn um að þessi gjaldeyrishöft væru mun líklegar brot á EES-samningnum en ekki. Við munum það úr Icesave-umræðunni þegar Samfylkingin trommaði að ef við mundum ekki samþykkja Icesave mundi EES segja EES-samningnum upp. Við munum það. Þá benti ég sífellt á að eina brotið á EES-samningnum væru gjaldeyrishöftin.

Ég var að undra mig á því hér í morgun af hverju hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra væri ekki við þessa umræðu því að hann fer með yfirumsjón þessara mála. Mig langaði til að beina til hans þeirri spurningu hvort ESA vissi yfir höfuð af þessari lagasetningu því að þeir þurftu að samþykkja lagasetninguna árið 2008 þegar gefin var heimild fyrir lögum nr. 134/2008 þegar gjaldeyrishöftin voru sett á. Það er mjög fróðlegt að lesa greinargerðina með þeim lögum því að þar er einmitt velt upp spurningum um alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins og þau borin saman við EES-samninginn. Rætt var við Efnahags- og framfarastofnunina og Alþjóðaviðskiptastofnunina. Allt var það gert á grunni þess að hér ríkti neyðarástand.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur: Til hvers verður hægt að grípa ef þetta frumvarp verður að lögum og ESA kemur til með að segja að þau séu brot á EES-samningnum? Í hvaða stöðu verðum við þá? Er það ekki hneisa fyrir Alþingi Íslendinga að setja lög sem nánast er (Forseti hringir.) viðbúið að fari beint í úrskurð Eftirlitsstofnunar EFTA?