139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér finnst óhjákvæmilegt að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem fela í sér mjög málefnalegt innlegg til þess hvernig dagskrá fundarins er háttað. Hér stendur yfir umræða um tiltekið mál, framhald umræðu sem átti sér stað í vor. Þegar henni var hætt í vor var það gert á tilteknum forsendum sem fram koma í þingmálinu sem hér hefur verið vitnað til.

Ljóst er að ekki hefur verið efnt það sem að var stefnt á þeim tíma. Þess vegna er eðlilegt að málið sé sett á ís svo ráðrúm gefist til að standa við þau atriði sem fram koma í þingskjali 1750, á þessu löggjafarþingi, og eðlilegt er að þeirri ósk sé beint til forseta að gera hlé á málinu á meðan botn fæst í það.