139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:42]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni er evrópska gjaldmiðilssamstarfið ERM II ferli sem er hugsað þannig að það auðveldi ríkjum að taka upp evruna, það er aðlögunarferli að því að taka upp evruna. Meira þarf í raun og veru ekki að segja um það mál.

Kostir evrunnar eru fullkomlega til staðar þó svo að hún eigi í vandamálum í dag. Kostir evrunnar fyrir íslenska þjóð, fyrir íslenskt samfélag eru fullkomlega til staðar og standa eftir óáreittir þó svo að evran sé í vandamálum og styrkist eða veikist, vegna þess að stærstur hluti utanríkisviðskipta Íslendinga er við þjóðir sem eru innan evrunnar, sem þýðir að sveiflist evran upp eða niður sveiflumst við með. Hin íslenska þjóð, hinn íslenski almenningur getur tekið lán í þeirri mynt og ekki þurft að búa við gengisóstöðugleika. Stór hluti verðbólgunnar er vegna gengisóstöðugleika og þess vegna verður helsti verðbólguhvatinn tekinn úr sambandi. Kostir evrunnar fyrir Íslendinga standa eftir hvað svo sem verður um styrkleika eða veikleika evrunnar.