139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt er þetta kunnuglegt, allt er þetta byggt upp á blekkingum frá Samfylkingunni og þessar ræður hafa verið haldnar margar eins og þingmaðurinn fór yfir áðan.

Það er eins og Samfylkingin haldi að hér hverfi lán og allt verði gott við það eitt að ganga í Evrópusambandið og tekin verði upp evra. Verðtryggðu lánin hverfa ekki. Evran er í gríðarlegri kreppu núna og ekki fyrirséð með það hvernig fer með hana. Talað er um norður-evru og suður-evru. Hvað er þingmaðurinn að fara með því að segja að þetta bjargi öllu á Íslandi? Talandi um það á hinn bóginn að framlengja verði gjaldeyrishöft til 1. janúar 2016, hvorki meira né minna.

Hv. þingmaður á eftir að svara því hvort Samfylkingin sé spennt fyrir að taka upp kínverskt júan.

En mig langar til að spyrja um eitt vegna þess að þingmaðurinn kom inn á það áðan, hann taldi að gjaldeyrishöftin væru brot á EES-samningnum, 40. og 41. gr., sem snýr að frjálsu flæði fjármagns. Er þingmaðurinn ekki hræddur um að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið verði sagt einhliða upp af hálfu sambandsins?