139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:54]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn saka mig um smjörklípur. Það er náttúrlega eilítið sérstakt að menn nálgist verkefnið með þessum hætti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki fundið þingsályktunartillöguna frá Sjálfstæðisflokknum um að sú leið verði skoðuð að taka upp evru í samstarfi við AGS. Ég man a.m.k. ekki til að hafa heyrt af henni. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður orðaði það svo að þetta væri eilítið annað en möguleiki. Það er eins gott að menn lofuðu ekki úttekt á sínum því að það hefði verið vont. (Gripið fram í.)

Það eina sem ég er hér að lýsa — (Gripið fram í.) Hv. þingmenn, það eina sem ég er að lýsa hér er að á sínum tíma taldi Sjálfstæðisflokkurinn það skynsamlegt að tekin yrði upp evra. Menn nálguðust kjósendur sína á þeim forsendum. En svo hoppuðu þeir til baka og eru núna í lýðskruminu að berja á þeim sem því miður þurfa að koma fram og segja: Já, krónan okkar er svo löskuð að við þurfum höft. Þetta finnst mér vera lýðskrum gagnvart kjósendum, eilítil svik. (Gripið fram í.)