139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:57]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fimm dögum fyrir síðustu kosningar birtu sjálfstæðismenn heilsíður í blöðunum þar sem þeir sögðu að trúverðug leið að upptöku evru væri þeirra kosningamarkmið. Þeir nálguðust kjósendur sína á þeim forsendum. Þeir vildu taka upp evru í samstarfi við AGS. Fram hjá því verður ekki litið og menn geta því miður ekki — eins og ég virði hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, að góðu einu — vikið sér undan þeirri ábyrgð. Þess vegna er ég að óska eftir liðsinni þeirra í þeirri baráttu að marka hér trúverðuga stefnu til lengri tíma í gjaldmiðilsmálum okkar. Ég sakna félaga minna í Sjálfstæðisflokknum sem töluðu þannig í kosningabaráttunni að þeir mundu vilja skoða þennan möguleika alvarlega af ábyrgð en nálgast nú ekki verkefnið af ábyrgð. Það er það sem ég er að benda á. Ég sakna þess vegna þess að við erum skoðanabræður í svo mörgu. En þarna virðist Sjálfstæðisflokkinn skorta hugrekki til að takast á við málefni sem þeir notuðu á sínum tíma til að nálgast kjósendur sína.