139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem svo stuttur tími var hjá mér í ræðunni áðan langar mig líka aðeins til að minnast á undanþáguákvæði sem gjaldeyrishaftalögin byggðu á 2008. Þá var byggt á 3. tölulið 45. gr. þar sem leyft er að hindra flæði fjármagns á milli landamæra þegar það reynist óhjákvæmilegt vegna þess að það verður að fara leynt eða þolir ekki bið. Þarna var virkt ákvæði sem var notað í lagasetningunni 2008. Í 4. tölulið kemur svo fram að þær ráðstafanir að hindra þetta og setja gjaldeyrishöft á skuli hafa í för með sér eins litla röskun á framkvæmd samnings þessa og kostur er og mega ekki vera víðtækari en brýnasta nauðsyn krefur til að ráða bót á þeim skyndilega vanda sem komið hefur upp. Á þessu er frumvarpið sem nú er lagt fram, árið 2011, byggt.

Þetta er skýrt brot á EES-samningnum. Það er gott að hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom inn á tenginguna við ESB-umsóknina. Það er alveg undarlegt að í þeim málum sem hafa snert ESB hér í þinginu hafa samfylkingarþingmenn alltaf komið fram og fullyrt að hitt og þetta væri brot á EES-samningnum. Við fengum nú heldur betur að kynnast því í Icesave-deilunni sem við áttum í í nánast tvö ár. Ég sagði alltaf þá: Það er hvergi verið að brjóta EES-samninginn nema með gjaldeyrishöftunum. Það hefur svo sannarlega komið í ljós. Það hefur enginn getað fest hendi á að EES-samningurinn hafi verið brotinn nema með þessum gjaldeyrishöftum.

Það er kannski ekki nema von að Norðurlöndin séu ekki tilbúin til að styðja við okkur því að þau eru öll meðlimir í Evrópusambandinu að Noregi undanskildu. Formaður Framsóknarflokksins fór til Noregs og fékk þar mjög gott veður, en því miður eru sósíaldemókratar þar í ríkisstjórn og fara með forsætisráðuneytið. Við vitum að sósíaldemókratar í Evrópusambandinu vilja fá Noreg inn eins og Ísland, þannig að það var fyrst og fremst pólitísk ákvörðun hjá norsku ríkisstjórninni að hjálpa okkur ekki. Forsætisráðherrann (Forseti hringir.) vill standa með skoðanabræðrum sínum í Evrópusambandinu.