139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað bagalegt, eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að hér séu hvorki til staðar formaður meirihlutaálitsins, hv. þm. Helgi H. Hjörvar, né hæstv. ráðherra efnahagsmála. (MÁ: Ég er hérna.) Hv. þm. Mörður Árnason er hérna og við verðum bara að láta það duga að hann svari fyrir allan meiri hlutann. Það hefur náttúrlega verið átakanlegt að sjá bæði hversu fáir stjórnarliðar eru hér og taka þátt í umræðunni.

Nú er þetta knappur tími til að spyrja djúpra spurninga um hvaða leiðir menn vildu fara en ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal er vel að sér í þessum fræðum og hann gæti kannski upplýst okkur í almennum orðum hvaða leiðir menn ættu að fara í stað þeirrar leiðar sem hér er boðuð með því að binda gjaldeyrishöftin til svona langs tíma og lýsa því í raun yfir samhliða að menn hafi enga trú á krónunni sem gjaldmiðli. Reyndar hafa þeir fáu stjórnarliðar sem hafa talað um þetta, bæði í þinginu og kannski ekki síður úti í samfélaginu, látið einskis færis ófreistað til að tala niður krónuna. Því verður þetta auðvitað ótrúverðug leið sem menn virðast ætla að fara, að festa gjaldeyrishöftin í fimm ár og segja að það verði að hámarki til þess tíma en svo eigi að vinna að því að losa þau á þeim tíma.

Mig langar kannski að heyra svona í almennu yfirliti hvaða leiðir þingmaðurinn teldi vænlegri að fara en þá leið sem hér er farin og ég geri mér grein fyrir að hann getur ekki farið djúpt í það á tveimur mínútum.