139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þm. Lilja Mósesdóttir hafa lýst skelfilegum afleiðingum gjaldeyrishafta á mjög raunsannan hátt. Þetta var nefnilega svoleiðis. Svo fengu aðrir leyfi til að flytja inn jeppa og þeir seldu leyfið dýrum dómum og græddu á öllu saman, sem er líka mjög skelfilegt. Gjaldeyrishöft leiða okkur út í mjög mikið fen sem enginn veit í rauninni hvernig við komumst til baka úr. Það þarf að fara að skoða ofan í vasa og veski. Það þarf að fara að skoða millifærslur. Mér skilst að uppi í Seðlabanka sitji núna fólk alla daga og skoði greiðslukort Íslendinga, skoði færslur af kortum Íslendinga til að athuga hvort þeir hafi eytt of miklu. Þar með sér starfsfólkið í rauninni hvernig einstaklingurinn eyddi peningunum. Var hann einhvers staðar á einhverri krá? Var hann á dýrum veitingastað? Eða var hann að kaupa í einhverri fataverslun sem þykir fínni eða líka ódýrari? Hvort tveggja er saga til næsta bæjar. Þetta er náttúrlega alveg óþolandi, frú forseti, að svona staða skuli vera til og við séum að búa hana til og við ætlum að framlengja hana.

Ég get fullyrt að um leið og búið er að samþykkja þessi lög, sem ég vona að verði ekki, segja embættismennirnir í Seðlabanka: Guði sé lof, nú getum við slappað af. Þeir eru nefnilega hræddir við að taka svona ákvörðun vegna þess að um leið og þeir taka ákvörðun um að aflétta höftunum bera þeir ábyrgð á afleiðingunum sem geta verið þær að krónan falli eitthvað tímabundið eða eitthvað annað. Það er oft betra að gera ekki neitt, því að ef maður gerir ekki neitt ber maður ekki ábyrgð á því sem þetta gerði.

Þetta er einmitt hættan, að um leið og við samþykkjum þessi lög verði ekkert gert þangað til í árslok 2015. Og hvað halda menn að gerist þá, frú forseti? Það mun gerast þá að það kemur fram tillaga á Alþingi um að framlengja þetta í þrjú ár í viðbót.