139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir áhyggjur sem komu hér fram í umræðunni varðandi afstöðu þingflokks Vinstri grænna. Nú er því þannig háttað að við hv. þm. Pétur Blöndal sitjum saman í efnahags- og skattanefnd. Þar sitja líka fulltrúar þingflokks Vinstri grænna, hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Ég hafði áhuga á að sitja í hv. efnahags- og skattanefnd sem fulltrúi Vinstri grænna en það var ekki áhugi á því þannig að ég þurfti að semja við Hreyfinguna um að fá sæti í þessari nefnd. Þess vegna finnst mér ástæða til að vita hver afstaða þessara þingmanna þingflokks Vinstri grænna er því að hún er mér ekki ljós. Þingflokkur Vinstri grænna virðist treysta þessu fólki til að hafa betri stefnu í málum sem koma fyrir nefndina en ég hef haft fram til þessa. Ég vona því, frú forseti, að þessir tveir þingmenn og fulltrúar Vinstri grænna komi hér upp og tjái skoðanir sínar á gjaldeyrishöftunum.

Frú forseti. Ég hef eins og aðrir í umræðunni áhyggjur af því að verið sé að bjóða okkur upp á krónu í höftum og það er meginástæða þess að ég hef tekið þátt í þessari umræðu. Ég sé ekki hvernig sú áætlun um afnám gjaldeyrishaftanna sem á að innleiða hér muni tryggja það að við getum afnumið höftin. Áætlunin gengur út á það að vextir verði hækkaðir. Ég tel að sú (Forseti hringir.) aðgerð muni leiða til skortsölu á íslenskum ríkisskuldabréfum og það muni síðan draga úr hraða (Forseti hringir.) afnámsins.