140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Menn skulu ekki gera lítið úr niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og stjórnarskránni er nú háttað er ekki hægt að viðhafa öðruvísi kosningu um þetta mál en að hún sé ráðgefandi. Það sem ég sagði áðan og vil endurtaka er að ef þingið ætlar að taka ráð þeirra sem mynda meiri hluta í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þurfa þau skilaboð að vera nokkuð auðlesin. Mér finnst þess vegna eðlilegt að það sé hægt eins og ég sagði áðan að taka þessa atkvæðagreiðslu kafla fyrir kafla og gefa mönnum kost á því að lýsa skoðun sinni á einstaka atriðum.

Hv. þingmaður spurði hvað mundi gerast ef einstök grein yrði felld út og það er einfalt. Það væru mjög skýr skilaboð (Forseti hringir.) til þingsins um að sú grein væri bara ekki nógu góð.