140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[17:34]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég svara þessari spurningu þá væntanlega í ellefta sinn ef ég hef talið rétt. Mér er ósköp vel kunnugt um að hv. þm. Pétur Blöndal á erfitt með að skilja hvað býr að baki hugtakinu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla er ekkert öðruvísi en ráðgjöf sem maður fær annars staðar. Maður getur haft skoðun og jafnvel sannfæringu á einhverju máli en ef maður stendur frammi fyrir því að fjöldi fólks ráðleggur manni eitthvað annað held ég að flestallt venjulegt fólk mundi kannski setjast niður og hugsa sig um tvisvar og jafnvel þrisvar, einfaldlega vegna þess að við höfum ekki öll alltaf rétt fyrir okkur.

Þegar ég hef rangt fyrir mér skipti ég um skoðun og því spyr ég hv. þingmann til baka: Hvað gerir hv. þingmaður þegar hann hefur rangt fyrir sér en sannfæringin skipar honum að hafa rangt fyrir sér? Þetta eru ekki auðveldar spurningar en ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla gefur Alþingi einfaldlega leiðbeiningu um hvað þjóðin vill eða vill ekki. Þingmenn gera það svo að sjálfsögðu upp við sjálfa sig hverju þeir munu fylgja. Ef menn hafa á þinginu stjórnarskrárvarinn rétt til að fylgja sannfæringu sinni og hún er á einhvern annan hátt en þjóðarinnar fylgja menn að sjálfsögðu sannfæringu sinni. Annað væri skrýtið. Ég verð að viðurkenna það engu að síður eftir að hafa verið hér þingmaður í á þriðja ár að sannfæring þingmanna ristir ekki sérlega djúpt miðað við þau þingmál sem þeir afgreiða.