140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[18:46]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég get alveg tekið undir með þingmanninum um að lagabreytingar feli í sér óvissu. Ég held að það eigi ekki bara við um stjórnarskrá. Ef við breytum einhverjum lögum, sem dómstólar þurfa svo að túlka og dæma eftir, skapar það alltaf einhverja óvissu. Ég held að ef við ætluðum að láta það trufla okkur hér á þinginu gætum við bara lagt niður Alþingi Íslendinga og hætt að breyta lögum því að það mun alltaf skapa óvissu og eitthvert óvissuástand.

En ég er glöð að heyra að þingmaðurinn vill breyta stjórnarskránni og ég hef reyndar þóst skynja það á máli hans. Hins vegar get ég ekki annað en verið ósammála því að í orðum mínum hafi falist lítilsvirðing við þá sem eru mér ósammála. Það var að minnsta kosti alls ekki meiningin.