140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[13:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þingmaður þekkjum báðir vel mismunandi stöðu opinbera lífeyrissjóðakerfisins og hins almenna. Við höfum átt ótal samræður um það mál. Þetta breytir engu í sjálfu sér um þá stöðu. Í fyrsta lagi vegur þetta ekki þungt í rekstri lífeyrissjóðanna vegna þess að mannahald þar er tiltölulega lítið miðað við þær miklu fjárhæðir sem þar eru á bak við og í raun hverfandi ef horft er til starfsmannafjölda lífeyrissjóðanna borið saman við þær hreinu eignir sem þeir ávaxta eða eru iðulega með í ávöxtun hjá öðrum aðilum. Það er mjög óverulegt og hefur ekki teljandi áhrif að ég best tel. Nefna má líka að í gangi er víðtækt samráð og víðtæk skoðun á lífeyrissjóðamálunum í heild sinni og hefur staðið yfir undanfarið eitt og hálft ár. Vonandi fer að draga til tíðinda í þeirri vinnu sem miðar að því að samræma kerfin til framtíðar litið og stefna þeim í sambærilega átt þannig að þau verði sjálfbær og með sambærileg réttindi yfir línuna.

Varðandi útvistun held ég að ekki ætti að vera mikil hætta á því. Ef menn ætla að færa verkefni sem þeir þurfa að greiða fjársýsluskatt af yfir í aðra starfsemi þar sem ekki þarf að greiða fjársýsluskatt, yrði það nokkuð augljóslega fært yfir í virðisaukaskattsskylda starfsemi. Ég er því ekki viss um að það hefði mikil áhrif. Þvert á móti má segja að þetta stuðli að hlutlausara fyrirkomulagi en áður hefur verið. Ýmsir aðilar utan frá hafa auðvitað kvartað yfir því hvernig það hefur verið, samanber það sem ég sagði áður um að mörkin væru kannski ekki alveg hrein um þá þætti innri starfsemi sem ætti að bera virðisaukaskatt af því að hún væri í samkeppni við skattskylda aðila úti á markaði. Fljótt á litið ætla ég að þetta muni einfaldlega (Forseti hringir.) jafnvægisstilla þetta betur og gera samkeppnisstöðuna sanngjarnari í báðar áttir.