140. löggjafarþing — 29. fundur,  30. nóv. 2011.

fangelsismál.

[15:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að góð sátt sé um það að menn vandi til verka. Ég hélt að þegar hæstv. ráðherra tilkynnir að fara eigi í þessa byggingu að þá sé búið að kynna það vel fyrir ríkisstjórnarmeirihlutanum. Það hlýtur að hafa verið kynnt fyrir hv. þingmönnum að þarna væri vandað til verka. En ef marka má orð hæstv. ráðherra hefur það ekki verið gert.

Fyrstu viðbrögð hæstv. ráðherra þegar þingmenn úr ríkisstjórnarmeirihlutanum henda þessu út af borðinu er að segja að þetta hljóti að vera mistök. Ég verð þá að spyrja hæstv. ráðherra: Eru þetta mistök eða ekki? Af hverju var þetta ekki kynnt fyrir hv. þingmönnum áður en ákvörðunin var tekin og sett í fjárlögin? Hæstv. ráðherra talaði ekki skýrt um það hvenær þetta yrði sett á fjárlög (Forseti hringir.) og því væri ágætt að hann mundi lýsa því yfir hvort hann telji að þetta verði afgreitt í fjárlögum þessa árs eða ekki.