140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það kom mér nokkuð á óvart að heyra hv. þm. Skúla Helgason tala áðan um miklar bætur til handa öryrkjum og eldri borgurum. Mig rekur minni til þess að um mitt ár 2009 hafi verið farið mjög myndarlega í að taka út hinar ýmsu bætur sem þessir hópar fengu, í það minnsta eldri borgarar. Ég kallaði eftir upplýsingum um þetta varðandi eldri borgara og ef ég man rétt var sparnaður ríkissjóðs um 4,5 milljarðar af þeim gjörningi einum. Örugglega má finna þess stað einhvers staðar þar sem bætur hafa hækkað, ég ætla ekki að halda öðru fram. En þegar á heildina er litið er góð ástæða fyrir því að það heyrist jafnmikið og raun ber vitni í þessum hópum og hvað vonbrigði þeirra eru mikil.

Virðulegi forseti. Við erum að tala um afskaplega mikilvæga hluti. Þetta er hvorki meira né minna en tekjuöflun við fjárlög íslenska ríkisins. Hv. þingmenn Tryggvi Þór Herbertsson og Birkir Jón Jónsson hafa réttilega bent á að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar er lipur maður í samskiptum og hefur staðið sig um margt vel sem formaður og ég ætla ekki að draga neitt úr því. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að við erum að ganga frá þessum stóru málum núna og vinna þau á gríðarlegum hraða. Það er bara eitt sem gerist ef menn vinna svona hluti á slíkum hraða, það verða mistök. Þessi hv. nefnd á að vera sú sem er sérfróðust um þessi mál en því fer víðs fjarri að meiri hlutinn sem ber ábyrgð á þessum breytingum þekki og viti hvaða afleiðingar þær breytingar sem við munum fara í núna á allra síðustu dögum þingsins munu hafa, bæði á ríkissjóð og efnahagslífið í heild sinni.

Hér áðan tókust hv. þingmenn á um það hvort breytingarnar mundu leiða til skattahækkana eða skattalækkana á einstaka hópa. Ein af ástæðunum fyrir því að menn voru að deila um það er kannski sú að þær upplýsingar liggja ekki fyrir. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins í hv. efnahags- og viðskiptanefnd fórum fram á að fá upplýsingar um hvaða áhrif þær hefðu á einstaka tekjuhópa. Þær upplýsingar áttu að liggja fyrir á mánudagsmorgun en þær eru ekki enn þá komnar. Væntanlega verða þær ekki komnar áður en þessari umræðu lýkur. Svo sannarlega höfum við ekki fengið að fara yfir þetta í nefndinni.

Ég vek athygli á því að við báðum um farið yrði sérstaklega yfir það og kannað hvaða afleiðingar það hefði að hækka skatta á viðbótarlífeyrissparnað. Í rauninni er um að ræða tvísköttun þó svo í framkvæmdinni sé hugsanlega og vonandi komið í veg fyrir það. Stóra einstaka málið er að þetta mun draga stórlega úr sparnaði á Íslandi. Sparnaður á Íslandi er ekki mikill. Ég fer betur yfir það á eftir.

Umsagnaraðilar sem sendu umsagnir sínar til nefndarinnar, hvort sem það voru stéttarfélög eða hinir ýmsu aðilar, fóru hörðum orðum um þennan gjörning og töldu að með honum væri verið að eyðileggja viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið, sem er þriðja stoðin undir lífeyriskerfi okkar Íslendinga. Það er algjörlega ljóst að þetta mun hafa afleiðingar í nánustu framtíð fyrir almannatryggingakerfið. Hvaða afleiðingar veit enginn, nákvæmlega enginn. Af hverju? Vegna þess að það hefur ekki verið kannað. Ég held að mjög eðlilegt sé að menn spyrji: Hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd ekki þessar upplýsingar þegar hún gengur frá tillögum sínum? Það getur ekki annað verið.

Virðulegi forseti. Svarið er nei. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki neinar upplýsingar um þennan þátt málsins frekar en margt annað.

Hið sama má segja um eignarskattinn sem ber nafnið auðlegðarskattur, sem ég fer nánar yfir á eftir. Ég bað um upplýsingar um það hvaða afleiðingar það mun hafa að væntanlega mun fólk flytjast úr landi út af þeim skatti. Nú er enginn vafi á að fólk er að flytjast úr landi vegna þessarar skattlagningar. Hvernig vitum við það, virðulegi forseti? Við vitum það vegna þess að nefndin fékk umsagnir um þetta og til hennar komu gestir sem eru í nánum samskiptum við fólk sem er núna að undirbúa að færa lögheimili sitt frá Íslandi. Það mun þar af leiðandi hvorki greiða þennan auðlegðarskatt né aðra skatta. Svo einfalt er það. Þeir sem komu fyrir nefndina og sögðu frá þessu höfðu engra annarra hagsmuna að gæta nema Íslendinga og það var algjör samhljómur milli þeirra endurskoðenda sem komu á fund nefndarinnar um að þetta væri að gerast núna. Ég fer nánar yfir það á eftir.

Hvað vitum við um afleiðingar af þessu? Ekkert. Nákvæmlega ekki neitt, virðulegi forseti. Samt sem áður erum við að ganga frá þessum viðamiklu breytingum.

Það sem verið er að gera í það heila er að hækka skatta og auka flækjustig. Þegar þessi þáttur fjárlaga verður frágenginn og við förum í jólafrí hefur þessi ríkisstjórn breytt sköttum um það bil 140 sinnum. Á þeim stutta tíma sem hún hefur verið við völd er búið að gera skattkerfið, sem var tiltölulega einfalt og gagnsætt, gríðarlega flókið og erfitt.

Hvað þýðir flókið skattkerfi, virðulegi forseti? Hvað þýðir það? Það þýðir aukinn kostnað fyrir fólkið í landinu. (PHB: Og svindl.) Hv. þm. Pétur Blöndal bendir á að það eykur líka líkur á undanskotum svo sem oft hefur komið fram í hinum ýmsu úttektum, örugglega stundum vegna þess að fólk veit ekki betur, vegna þess að í okkar landi er skattalögum breytt á hverju einasta ári. Þessi ríkisstjórn hefur verið við völd í þrjú ár og hefur breytt sköttum 140 sinnum og hún er enn að.

Virðulegi forseti. Við erum komin í fullkominn vítahring. Hv. þm. Helgi Hjörvar mælir hér áðan fyrir málinu og segir að þrennt skipti máli: störf, sparnaður og fjárfesting. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni, hvert einasta orð. Fyrir hverju mælir síðan hv. þm. Helgi Hjörvar fyrir hönd ríkisstjórnarmeirihlutans? Fullt af sköttum sem koma í veg fyrir störf, í veg fyrir sparnað og í veg fyrir fjárfestingu. Þegar ég spurði hv. þingmann áðan í andsvari sagði hann eins og er, og ég ætla honum ekki neitt annað, en hann væri bara að reyna að bjarga því sem bjargað yrði. Þetta er að vísu mín túlkun á orðum hans, en ef ég man rétt tók hann nú undir hana í andsvörum okkar á milli.

Það segir sig sjálft að ef menn setja launaskatt á fjármálafyrirtæki mun það valda því að störfum fækkar. Allir umsagnaraðilar sögðu: Þetta mun fækka störfum, sérstaklega kvennastörfum og sérstaklega kvennastörfum úti á landi. Það er vegna þess, virðulegi forseti, að þar eru útibú sparisjóðanna í landinu. Fulltrúi sparisjóðanna sagði hreint út við nefndina að eins og frumvarpið lá fyrir fyrst hefði það riðið sparisjóðunum að fullu, og fór ekki neitt í felur með það.

Nú getur einhver sagt: Það er eitthvað búið að lina þetta. Jú, en það breytir því ekki að ef búinn er til sérstakur launaskattur á eina starfsgrein mun það hafa þessi áhrif. Það getur vel verið að einhverjir sparisjóðir muni lifa þetta af, ég veit það ekki, það mun koma í ljós. En það er alveg ljóst að fækka þarf starfsfólki. Þetta mun fækka starfsfólki. Það markmið að fjölga störfum mun ekki nást, þvert á móti.

Og það er meira að segja hægt að fara út í það, þó ég ætli ekki að gera mikið veður út af því, að með því að hækka einhverjar tóbaksdollur úr 600 kr. í 900–1.000 kr. eða hvað það nú er, er kaldhæðnislegt að það getur jafnvel orðið til þess að fækka störfum. Þetta er íslenskt neftóbak sem menn nota og ég hef séð það ágæta fólk sem vinnur við að framleiða það upp á Höfða í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Svo sannarlega fjölgar það heldur ekki störfum að hækka eldsneytisverð. Og ekki mun það ýta undir fjárfestingu. Við sjáum það núna, virðulegi forseti, að ferðalög hjá Íslendingum hafa dregist saman á milli ára vegna hækkandi eldsneytisverðs. Það kemur niður á ferðaþjónustunni sem þrátt fyrir allt, meðal annars út af blessaðri krónunni, er eitt af því fáa þar sem vaxtarbroddur hefur verið þessi missirin. Sérstaða ferðaþjónustunnar úti á landi miðað við ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, liggur í því að gistirými eru minna nýtt yfir árið. Almennt er fjárfesting í ferðaþjónustu yfir landið fyrst og fremst nýtt yfir sumarmánuðina en ekki vetrarmánuðina. Þetta mun ekki hjálpa þessari atvinnugrein, svo ég nefni bara eina atvinnugrein en það má að sjálfsögðu nefna fleiri.

Sérstakur skattur á viðbótarlífeyrissparnað og að draga úr honum mun að sjálfsögðu minnka sparnað. Reyndar held ég að allar hugmyndir varðandi skattlagningu á lífeyrissjóðina muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar og miklu fyrr en menn ætla. Lífeyrissjóðakerfið hefur verið kynnt þannig fyrir landsmönnum um áratugaskeið að það hafi algjöra sérstöðu. Menn geti treyst því að réttindi þeirra séu varin fyrir skattlagningu, en nú er hæstv. ríkisstjórn að breyta því. Við fylgdumst með því í umræðum áðan og sáum að hv. stjórnarþingmenn munu ekkert víla fyrir sér að skattleggja lífeyrissjóði þessa lands. Þá er ég að vísa í orðaskipti sem við nokkrir hv. þingmenn áttum við hv. þm. Skúla Helgason.

Virðulegi forseti. Eignarskatturinn sem er kallaður auðlegðarskattur mun ekki ýta undir sparnað. Því síður mun hann ýta undir fjárfestingu eða sköpun starfa í landinu, vegna þess að ef fólk fer úr landi greiðir það ekki skatta hér, hvort sem það eru veltuskattar eða aðrir skattar. Það mun að sjálfsögðu ekki hjálpa til við að skapa störf.

Bara svo menn átti sig á því hvaða afleiðingar eldsneytisskattahækkunin hefur í för með sér [Kliður í þingsal.] þá mun hún hækka skuldir heimilanna um 4 milljarða, virðulegi forseti. Hækka skuldir heimilanna um 4 milljarða. Ég heyri að hv. þingmönnum stjórnarliðsins finnst þetta bara frekar sniðugt allt saman og mikil stemning í herbúðum þeirra ef marka má það sem við heyrum hér frammi í sal. En þetta verður ekkert skemmtiefni fyrir fólkið í landinu og það er kaldhæðnislegt að fara í sérstaka skattheimtu á lífeyrissjóði landsins í nafni þess að bæta hag þeirra sem skulda, en hækka á sama tíma húsnæðisskuldir þeirra um 4 milljarða með eldsneytisskattahækkunum.

Hið virta endurskoðunarfyrirtæki Deloitte sagði í umsögn sinni að allir skattar á laun sem eru 217 þús. kr. eða hærri mundu hækka ef fjárlagafrumvarpið næði fram að ganga. Það hefur væntanlega eitthvað verið slegið á það, þannig að hækkunin er ekki jafnmikil. Við vitum það þó ekki, virðulegi forseti, vegna þess að gögnin liggja ekki fyrir. Umbeðin gögn hafa ekki fengist. Reyndar er það svo að við förum hér á fundi nefndarinnar og vitum aldrei hvað kemur næst nema að það kemur einhver nýr skattur eða skattalagabreyting. Þetta eru kjöraðstæður, virðulegi forseti, til að gera mistök. Mér sýnist að vonandi verði hægt að koma í veg fyrir ákveðin mistök sem ég ætla ekki að fara í hér, en vil ræða undir öðrum lið. Allt tal um breytt vinnulag þingsins, faglegri vinnubrögð, vandaðri vinnubrögð, er í besta falli orðið að afskaplega sorglegum brandara.

Virðulegi forseti. Settur var á sérstakur eignarskattur sem kallaður var auðlegðarskattur. Sérstaða hans felst í því að hann er ekki á tekjur heldur einungis á eignir. Það þýðir að engu skiptir hvað viðkomandi einstaklingur hefur lágar tekjur; hann skal greiða skattinn að því gefnu að hann eigi bókfærða eign. Það getur auðveldlega leitt til þess, og dæmi eru um það, að hann þurfi að selja eignir sínar til að greiða skattinn.

Fyrir tveimur missirum lagði ég skriflega fyrirspurn fyrir hæstv. fjármálaráðherra um þennan svokallaða auðlegðarskatt. Niðurstaðan var sú að árið 2009 að greiddu þeir sem voru með engar launatekjur, en það voru 657 fjölskyldur, 1,2 milljarða í auðlegðarskatt. Þeir sem höfðu heildartekjur undir 10 millj. kr. á ári, en það voru 387 fjölskyldur, greiddu auðlegðarskatt upp á 186 millj. kr. Ég endurtek: Heildartekjur fyrir árið 2009 undir 10 millj. kr., 387 fjölskyldur sem greiddu 186 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra meðal annars þessarar spurningar, með leyfi forseta:

„Hefur ráðuneytið kannað hvers vegna auðlegðarskattur hefur verið afnuminn í sumum Evrópulöndum?“

Svarið var mjög einfalt: Nei, það hafði ekki verið kannað. Það var lagt upp með að þetta yrði skattur til skamms tíma til að mæta þeim áföllum sem urðu í kjölfar bankahrunsins. Núna á að framlengja hann og ekki bara framlengja heldur hækka mjög hressilega. Áður fyrir var markið fyrir einstakling að hann ætti 90 millj. kr. í hreina eign og umfram, nú er það orðið 75 millj. kr. Eignamörkin fyrir hjón fara úr 120 millj. kr. niður í 100 millj. kr. Prósentan hækkar úr 1,25% í 1,5%. Nú geta menn bara sagt: Er þetta ekki ríkt fólk? Hefur það ekki bara gott af því að greiða skatta, greiða til samfélagsins?

Virðulegi forseti. Ég vorkenni ekkert ríku fólki, ég geri það ekki. En þetta snýst ekki um það. Ég held að það skipti máli að menn átti sig á hvað er hér á ferðinni. Ég hef kallað eftir því að fá sögur úr samfélaginu um hvaða fólk þetta er og hver staða þeirra er. Almennt er fólk mjög hrætt við að stíga fram en þó fékk ég tvö dæmi. Annað er um eldri mann sem hefur greitt lítið í lífeyrissjóði en haldið utan um lífeyri sinn í ýmsum eignum. Hann greiðir það mikinn auðlegðarskatt að hann hefur ákveðið að flytja af landi brott. Flutningurinn er auðveldur, enda er hann einn í heimili og hættur að vinna. Með því að flytja af landi brott sparar hann sér tæpar 40 millj. kr. í auðlegðarskatt. Þessi ákvörðun tók hann eftir að ljóst var að álagning auðlegðarskatts yrði framlengd. Þessi einstaklingur, eins og komið hefur fram, er kominn á aldur þannig að ef hann hefði greitt í lífeyrissjóð væri hann að taka út lífeyri. Hann gæti auðveldlega ílengst erlendis. Ef svo færi að hann félli þar frá mundi meira að segja erfðafjárskatturinn verða greiddur í öðru landi.

Við getum sagt sem svo að það sé sjálfsagt og eðlilegt að skattleggja ríkt fólk eins mikið og við getum og kannski getum við komist að þeirri niðurstöðu um þennan mann sem ekki hefur greitt í lífeyrissjóð af því að ekki eru skatttekjur af lífeyri, það er bara ef fólk hefur lífeyri fyrir utan lífeyrissjóðina. Við ætlum að mismuna fólki með þeim hætti. Í lífeyrissjóðum landsmanna eru 2 þús. milljarðar og fólk á þar réttindi. En þessi aðili fer bara út og greiðir ekki þennan skatt. Þetta eru bara 40 millj. kr., svona eins og ein líknardeild, sem hann ætti að greiða. En brottfluttur greiðir hann ekki heldur aðra skatta hér, ef hann er ekki á landinu greiðir hann ekki virðisaukaskatt, það segir sig sjálft. Og ef hann er með einhver umsvif eru meiri líkur á því að hann ílengist erlendis og verði með sín umsvif í öðru landi.

Svo er ég með annað dæmi um eldri hjón sem hafa ákveðið að flytja af landi brott vegna framlengingar á álagningu auðlegðarskatts. Þau eru bæði hætt að vinna og annað fær lífeyrisgreiðslur sem eru núna skattlagðar hér á landi. Þau eiga töluverðar eignir erlendis og munu ekki greiða auðlegðarskatt eftir flutning til annars lands. Auk þess munu lífeyrisgreiðslur annars þeirra verða skattlagðar erlendis en ekki hér á landi eftir flutning. Eins og í fyrra dæminu gætu hjónin ílengst erlendis og ef þau falla frá mun erfðafjárskattur falla í heimalandinu en ekki á Íslandi eins og ella hefði verið.

Virðulegi forseti. Hér missum við meira að segja tekjuskattinn af lífeyrisgreiðslum þessa fólks. Þannig að þeir sem tapa á því að þetta fólk flytji úr landi er fólkið sem (Gripið fram í: Situr eftir.) situr eftir. Við þurfum á hverri krónu að halda í ríkissjóð. Ég held að allir séu sammála um það. Ekki vantar óskirnar hér um útgjöld. Öll erum við vonandi sammála um að við viljum greiða niður skuldir, en þetta er svo einfalt, fólk hefur frelsi til að flytja og mun gera það. Í nefndinni hefur komið mjög skýrt fram hvað eftir annað að það er að gerast. Þetta er ekki þannig, virðulegi forseti, að maður geti tekið fram excelskjal og hækkað skatta eins og mann lystir út frá einhverjum skattstofnum, því skattstofninn er kvikur.

Þessi dæmi sem ég tók hér, snerta bæði eldra fólk á lífeyrisaldri, annað um einstakling og hitt um hjón og þessi dæmi eru raunveruleg. Ég fékk leyfi til að segja frá þeim hér hjá aðila sem er að hjálpa viðkomandi fólki að flytja af landi brott út af þessum skatti. Þessi skattur er einstakur. Hróbjartur Jónatansson, hæstaréttarlögmaður, skrifar um hann í síðasta Viðskiptablaði. Hann segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Spyrja má hvort einhver munur sé þá á íslenskum sósíalisma árið 2011 og austur-evrópskum sósíalisma eftirstríðsáranna.“

Ég sé hjá sumum hv. þingmönnum að þeim leiðist ekki þessi samanburður. Ég held að alvara málsins sé sú að þeim leiðist það ekki.

Það sem hann er að vísa í kemur fram hér á öðrum stað, með leyfi forseta:

„Auðlegðarskatturinn á Íslandi tekur hins vegar ekkert tillit til tekna skattþegans og er því af sama toga og til dæmis eignarskattar sem kommúnistar settu á víða í Austur-Evrópu eftirstríðsáranna. Þá var aðferðin sú að hækka eignarskatta og hirða svo eignirnar af fólki þegar skattar fóru í vanskil. (Gripið fram í: Já?) Auðlegðarskattur á slíkum forsendum er auðvitað ekkert annað en eitt form á eignaupptöku. Sambærilegt blasir við sumum Íslendingum, svo sem þeim sem eiga eignir en hafa litlar tekjur. Taka má dæmi um aldraðan einstakling, sem ekki er lengur á vinnumarkaði, hann á e.t.v. verðmæta fasteign sem í núverandi árferði gefur ekki af sér tekjur en telst vera auðlegðarskattstofn upp á 150 millj. kr.“

Virðulegi forseti. Höfum við farið vel og vandlega yfir þetta mál í hv. efnahags- og viðskiptanefnd? (BJJ: Nei.) Hér kallar hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem er með mér í þessari hv. nefnd: Nei. Það er hárrétt svar, virðulegi forseti. Nei, við höfum ekki gert það. Menn sitja með excelinn fyrir framan sig og stórhækka skattinn.

Hvað þessar breytingar snertir og flestar þær breytingar sem gerðar eru hér, hefur maður á tilfinningunni að allt gerist á hlaupum, þrátt fyrir að menn hafi heilt ár til að undirbúa næstu fjárlög. Þegar búið er að afgreiða fjárlög fara menn fljótlega í jólafrí, koma síðan milli jóla og nýárs og eftir nýár og geta hafist handa við að undirbúa næstu fjárlög. En samt er það alltaf þannig og hefur verið í tíð þessarar ríkisstjórnar að menn eru á handahlaupum og virðast búa til skatta á hlaupum án þess að vita nokkuð eða hafa áhuga á því að kanna hvaða afleiðingar þeir hafa í för með sér.

Virðulegi forseti. Nú er svo komið að menn ætla að skattleggja lífeyrissjóðina til að greiða vaxtabætur fyrir fólk sem er mjög skuldugt. Hér segja menn að þetta sé eðlilegt og gott mál af því að ríkisvaldið, lífeyrissjóðirnir og einhverjir fleiri hafi náð samkomulagi um þetta fyrir ári. En við þurfum að taka afstöðu til þessa máls. Við erum kosin til að taka afstöðu til þess. (Gripið fram í: Það er rétt.) Ég vek athygli á að þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir var það kynnt fyrir fólki sem var skylt að greiða í lífeyrissjóð, að lífeyrissjóðirnir yrðu aldrei skattlagðir. Ég fullyrði að menn úr öllum flokkum hafi sagt þetta. En núna, vegna þess að einhver gerði samkomulag sem reyndar enginn er sammála um hvað felst í því, ætla menn að ganga fram og skattleggja lífeyrissjóðina.

Sagt var að sérstaða sparnaðar í lífeyrissjóðum á Íslandi væri þessi: Enginn fjármagnstekjuskattur. Enginn eignarskattur. Þetta var langhagstæðasta sparnaðarformið. Það var hugsað til að létta á almannatryggingakerfinu vegna þess að við höfum séð þann gríðarlega vanda í mörgum löndum, sérstaklega í hinni svokölluð gömlu Evrópu. Það hefur verið lítið rætt hér en Evrópusérfræðingar hafa bent á þessa snjóhengju sem hangir yfir stórum löndum og Evrópu, að mannfjöldatréð er orðið nokkurn veginn alveg beint, það er lítið af ungu fólki, eldra fólki hefur fjölgað og ekkert er til í lífeyrissjóðum eða mjög lítið, ekki nema fólk hafi sparað upp á eigin spýtur.

Við lögðum af stað í vegferð til að koma í veg fyrir að lenda í þeirri stöðu. Við höfum ekki hikað við, virðulegi forseti, að hreykja okkur af þessu. Gott ef hv. þingmenn vinstri flokkanna hafa ekki talið sig eiga sérstaklega mikið í þessu kerfi, ef svo ber undir. En nú ætla menn að vega að stoðum þess með því að skattleggja lífeyrissjóðina.

Nú segja menn að málstaðurinn sé svo góður, þ.e. sérstakar vaxtabætur. En þegar menn hafa greitt út sérstakar vaxtabætur heldur lífið áfram hjá fólkinu sem ber þessar skuldir. Það mun enn bera þær. Hér er ekki um það að ræða, sem væri hugsanlega sjónarmið sem mætti rökstyðja, að menn segi: Lífeyrissjóðirnir fjármagna Íbúðalánasjóð og eru með ákveðinn hluta af íbúðalánum. Þau lán munu ekki fást greidd, það er ákveðin bóla sem er enn þá í kerfinu. Þetta hefur verið lítið rætt en ýmislegt bendir til þessa og þessar skuldir munu ekki fást greiddar þannig að leiðrétta þarf þessi lán. En hér er ekki um það að ræða, virðulegur forseti, heldur bara sérstakar vaxtabætur, einskiptisaðgerð, til ákveðins hóps fólks.

Hverjir greiða fyrir þetta? Í orði kveðnu eru það allir sem greiða í lífeyrissjóð sem greiða fyrir þetta. En það er ekki þannig. Það er eingöngu fólkið í almennu lífeyrissjóðunum. Reyndar er það þannig, svo ég vitni í forustumenn verkalýðshreyfingarinnar sem komu á fund nefndarinnar, að hér er fátækasta fólkið með minnstu lífeyrisréttindin skattlagt vegna þess að hér er bara verið að skattleggja samtrygginguna en ekki séreignina. Þannig að verkamaðurinn sem á að greiða alla ævi í lífeyrissjóð og á tiltölulega lítil lífeyrisréttindi, alveg sama hvar hann er í ferlinu, hvort sem hann fær nú útgreiddan lífeyri eða fær hann eftir fimm, tíu eða tuttugu ár; hann er skattlagður, virðulegi forseti. Ef hann á bróður eða systur sem er í opinberum lífeyrissjóði, geta þau verið örugg því þar eru réttindin lögbundin. Burt séð frá því hver afkoma lífeyrissjóðanna er, þrátt fyrir að ríkið skattleggi lífeyrissjóðina, breytir það engu, lífeyrisréttindin verða óbreytt í opinberum lífeyrissjóðum.

Þetta mun kosta sitt, virðulegi forseti. Við munum ræða það sem kemur að opinberu lífeyrissjóðunum þegar hæstv. ríkisstjórn leggur fram sérstakt frumvarp til að fresta vandanum. Það heitir að framlengja undanþágu um vikmörk. Það þýðir að verið er að fresta vandanum hjá þremur lífeyrissjóðum: Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga og Lífeyrissjóði bænda. Sú frestun og það að eignir þessara lífeyrissjóða standa ekki undir réttindum, mun líka kosta þennan verkamann sem hefur þegar greitt og er að greiða í almenna lífeyrissjóðinn. Hann mun borga þetta tvöfalt, ef ekki þrefalt.

Ég tiltók hér dæmi varðandi eignarskattinn. Það er til ákveðinn hópur fólks sem ekki hefur haft tækifæri nema stuttan tíma ævinnar til að greiða í lífeyrissjóð, kannski engan og hefur þar af leiðandi ekki greitt í hann, það fólk er skattlagt sérstaklega. Síðan erum við með sérstakan skatt á lífeyrissjóði sem hluti lífeyrissjóðfélaga, hvort sem þeir eru nú að taka út lífeyri eða greiða inn í lífeyrissjóð, borga sérstaklega.

Einhver kann að spyrja: Eruð þið ekki búin að ræða þetta í þaula í hv. efnahags- og viðskiptanefnd? Þetta er auðvitað ekki smámál. Svarið er einfalt: Nei, við erum alltaf á hlaupum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að bjarga því sem fyrst kemur sem eru svona almestu slysin. Ég efast ekki um að menn munu heyra þau sjónarmið að ýmsu hafi hugsanlega verið bjargað fyrir horn. Virðulegi forseti, við vitum það ekki. Við höfum ekki hugmynd um hvort það hafi verið gert. Ég efast ekki um að ætlunin hafi verið að bjarga ýmsu en ekki hefur gefist neinn tími til þess.

Stóra einstaka málið er þetta: Við vinnum ekki eftir neinni áætlun um hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þeim vanda sem kom í kjölfar bankahrunsins og er núna að koma fram í öðrum löndum af fullum þunga. Því miður hefur hann ekki komið fram að öllu leyti. Ég vona svo sannarlega að afleiðingarnar af þessari skuldakreppu sem ríður yfir heiminn verði sem allra minnstar en ég er hræddur um að þær verði ansi miklar. Við Íslendingar erum í sérstakri stöðu vegna þess að þetta reið einna fyrst yfir hjá okkur. Við bárum gæfu til þess og allir flokkar samþykktu það, virðulegi forseti, nema flokkur hæstv. fjármálaráðherra, að samþykkja neyðarlögin sem var án nokkurs vafa afskaplega skynsamlegur gjörningur. Allir flokkar nema flokkur hæstv. fjármálaráðherra greiddu atkvæði með því. Það var örugglega líka skynsamlegt af okkur að fara í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Allir flokkar voru fylgjandi því nema flokkur hæstv. fjármálaráðherra. Hann talaði mikið um hina köldu hönd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ætlaði að losa okkur út úr því sem allra fyrst hefði hann tök á.

Virðulegi forseti. Þegar menn lögðu af stað í þá vegferð ætluðu menn ekki síst að koma hjólum atvinnulífsins á stað og leiðrétta skuldir almennings og fyrirtækja. Þetta tvennt hefur algjörlega mistekist. Það er alveg sama hvernig við nálgumst það mál, hvort sem er út frá mannúðarástæðum, af því við viljum að fólk sé hamingjusamt og líði vel, eða út frá köldum krónum og aurum eða hugsum um sparnað í ríkisrekstri. Niðurstaðan er alltaf sú að mesti sparnaðurinn, það besta sem við getum gert, er að koma atvinnustiginu upp og fólki til að vinna — hér á landi, ekki í öðrum löndum eins og gerst hefur. Því miður eru nýjustu fregnir þær að atvinnuleysi sé að aukast en þegar það hefur farið niður á við er það ekki síst vegna þess að fólk er farið til annarra landa, bæði opinberir starfsmenn og aðrir, að vinna. Við getum lent í sömu stöðu og vinir okkar Færeyingar sem misstu þúsundir manna sem ekki komu til baka. Þá er ég ekki endilega að vísa til sérstaka eignarskattsins sem heitir auðlegðarskattur. En fólk er fara brott vegna hans og það sem við munum finna mest fyrir þar er að það fólk borgar núna skatta hér á landi og verður fengur fyrir aðrar þjóðir að fá það fólk til sín því það mun borga skatta þar. Þegar ég hugsa til þess að fólk sé að flytja utan er ég fyrst og fremst að hugsa um þetta unga kröftuga fólk sem hefur tækifæri til að rífa sig upp með rótum og fara að vinna í öðrum löndum. Og þegar maður er kominn með fjölskylduna í annað land, börnin eru komin í skóla og farin að tengjast félögum og vinum og eru jafnvel orðin ekki síður íbúar þess lands en Íslendingar, þá er erfitt að snúa aftur.

Virðulegi forseti. Á meðan við horfum upp á þessar staðreyndir mála, erum við hér reddandi hlutum fyrir horn. Málflutningur hv. stjórnarþingmanna er þessi: Já, breytingarnar eru þess eðlis að málið er núna ekki jafnskelfilega vont og það var þegar hæstv. fjármálaráðherra flutti það. Ekki jafnskelfilega vont, það er aðeins betra. Það er sú framtíðarsýn sem menn eru núna að vinna eftir.

Að lokum vil ég gera orð hv. þm. Helga Hjörvars að mínum. Það sem þarf að gera er að fjölga störfum, auka sparnað og ýta undir fjárfestingu. Ég segi við hv. þm. Helga Hjörvar: Sameinumst um það verkefni. Meira að segja hv. þm. Helgi Hjörvar viðurkenndi að þessar skattbreytingar ganga þvert á þau markmið. (Gripið fram í.) Þær munu ekki fjölga störfum. Þær munu minnka sparnað, ekki auka. Þær munu svo sannarlega ekki ýta undir fjárfestingu.

Virðulegi forseti. Nú göngum við frá þessum málum, klukkuna vantar núna tuttugu mínútur í níu. Við erum að ræða þau mál sem við hefðum átt að ræða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og fara vel yfir þar. Kannski munum við ræða þetta fram eftir nóttu, svo hittumst við klukkan átta í fyrramálið á fundi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og fáum á fund okkar lögmanninn sem hefur bent á að sambærilegir skattar hafa verið bannaðir í öðrum löndum, og hefur þar vísað sérstaklega til Þýskalands og til þess að í öllum öðrum löndum er tekið tillit til tekna fólks en ekki farið í eignaupptöku. Kannski verðum við hrikalega vel stemmd þá. Kannski kemur eitthvað stórkostlegt út úr þeim fundi sem mun breyta þessu í grundvallaratriðum.

Virðulegi forseti. Ég efast um það. Ég vonast bara til að við verðum aðeins með lágmarksslys eftir þessa umferð.