140. löggjafarþing — 38. fundur,  17. des. 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 83/2011 um breytingu á XVI. viðauka við EES-samninginn.

351. mál
[01:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er leitað heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2011. Hún varðar breytingu við EES-samninginn og gerir ráð fyrir að felldar verði inn í hann þrjár reglugerðir sem varða í fyrsta lagi stöðluð eyðublöð fyrir birtingu auglýsinga við opinber innkaup þannig að hún nái til fleiri sviða opinberra útboða en áður. Í öðru lagi breytingu á þremur eldri tilskipunum til að aðlaga viðmiðunarfjárhæðir við útboð og gerð samninga að reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Í þriðja lagi breytingu á tveimur eldri tilskipunum að því er varðar aukna skilvirkni í meðferð kærumála vegna gerðar opinberra samninga.

Þessar breytingar miða að því að auka réttarvernd hagsmunaaðila í meðferð kærumála vegna gerðar samninga um opinber innkaup. Er meðal annars gert ráð fyrir að kærunefnd útboðsmála geti lýst samninga óvirka og settar verði reglur um önnur viðurlög vegna alvarlegra brota gegn reglum um opinber innkaup sem geta verið í formi stjórnvaldssekta og styttingar á samningum. Þetta kallar á breytingar á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Hæstv. fjármálaráðherra mun leggja fram lagafrumvarp þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi. Efnahagslegar og stjórnsýslulegar afleiðingar vegna innleiðingar tilskipunarinnar eru ekki stórvægilegar.

Ég legg til, frú forseti, að þessari tillögu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar að lokinni þessari umræðu.