140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[17:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni að þó að ég hafi tíundað hér svona eftir minni helstu rök Fjármálaeftirlitsins sjálfs og stjórnar þess fyrir fjárþörf Fjármálaeftirlitsins að það hafi eitthvað með þá afstöðu sem ég eða eftir atvikum fagmenn í fjármálaráðuneytinu, sem unnu tiltekna kostnaðarumsögn, að gera, það er ekki svo. Þetta voru þau sjónarmið, af því að ég fór auðvitað yfir rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins á sínum tíma og ég þekki vel rökin, sem þar voru færð fram fyrir því að stofnunin þyrfti á verulega auknum fjármunum að halda þessi missirin. (Gripið fram í.) Þetta var sundurgreint og brotið niður og þar hygg ég að allir þeir þættir sem ég nefndi áðan hafi komið við sögu.

Síðan gera menn ráð fyrir því að það dragi úr þessari fjárþörf tiltölulega hratt á næstu missirum og við skulum vona að það gangi eftir þó að reynslan hafi stundum kennt okkur að það sé erfiðara að ná fjárveitingunum niður þegar þær einu sinni eru búnar að hækka.