140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[18:03]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég hefði mátt standa mig betur í að reyna að svara sérstaklega spurningunni varðandi ákvæði 1. málsliðar 1. gr. en ég hef í raun ekki aðrar upplýsingar um það en þær sem orðanna hljóðan felur í sér. Það er vonandi nógu skýrt að þetta opnar á möguleika á að tilteknar greiðslustofnanir geti verið undanþegnar, við skulum segja einhverri upplýsingagjöf eða öðru slíku, vegna þess að Fjármálaeftirlitið, sem leikur hér lykilhlutverk sem bæði eftirlitsaðili og einn af burðarásunum í samræmingu aðgerða að þessu leyti, sér ekki ástæðu til að þær séu það. Við getum þá væntanlega hugsað okkur einhverja algerlega innlenda greiðslustofnun sem engin einasta ástæða er til að ætla að mögulega gæti verið notuð til peningaþvættis, sem gæti verið undanþegin. Ég reikna með að þetta væri ávísun á eitthvað slíkt.

Varðandi greiðslur og skuldbindingar skil ég það þannig að við séum skuldbundin til að samræma löggjöf og starfsreglur. Við höfum gengist undir það í samstarfi á þessu sviði, þ.e. nákvæmlega það sem snýr að samræmdum aðgerðum í baráttu gegn peningaþvætti og fjármögnun fyrirtækja en það er ekkert umfram það. En ég held að það sé rétt að við sem aðilar að þessu samstarfi, ef við ætlum að vera það, þurfum að leggja það af mörkum að sjá um að við beitum sömu samræmdum úrræðum í þessum efnum og gert er alþjóðlega.

Varðandi kostnað rekur mig ekki minni til þess að hafa heyrt að við þurfum að greiða iðgjald enda er þetta ekki venjuleg stofnun heldur samráðshópur sem væntanlega er fyrst og fremst kostnaður af þeim sem þátt (Forseti hringir.) taka í honum, þ.e. hver greiðir þá sinn kostnað vegna sinna fulltrúa o.s.frv.