140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og jafnan var fróðlegt að hlusta á hv. þingmann. Það gerist samt stundum þegar hv. þingmaður talar að það er ekki alveg ljóst hvað hún á nákvæmlega við. Hv. þingmaður kvartaði í upphafi ræðu sinnar sáran yfir því að yfir höfuð væri verið að veita liðsinni af þessu tagi en í seinni hálfleik kvartaði hún undan því að þessir peningar dygðu ekki til nægilega mikillar uppbyggingar á Íslandi. Hv. þingmaður virðist sem sagt telja að fyrst að Evrópusambandið veiti á annað borð liðveislu af þessu tagi eigi þess að sjá stað innan samfélagsins. Ef það er vilji hv. þingmanns er auðvitað alveg sjálfsagt að ég beiti mér sem utanríkisráðherra fyrir því að við fáum slíka fjárhagslega liðveislu á öðrum sviðum líka. Við getum þá farið í þær eins og Króatar og ýmsar aðrar umsóknarþjóðir gerðu til að fá fjármagn til að ráðast hér í innviði.

Ég er alveg reiðubúinn að hlusta á hv. þingmann ef það er það sem hún vill, en hún getur ekki bæði kvartað undan því að við fáum peninga af þessu tagi, vegna þess að henni finnst það ósiðlegt, en á hinn vænginn kvartað undan því að peningarnir nýtist ekki nægilega vel til uppbyggingar og skilji ekki nógu mikið eftir í samfélaginu. Herra trúr, það sér hver maður að þetta rekur sig hvort á annars horn.

Ég verð hins vegar að viðurkenna, herra forseti, að ég er miklu hlynntari þeirri Vigdísi Hauksdóttur sem talaði undir lok ræðunnar en þeirri sem talaði í upphafi. Ég lýsi því hins vegar yfir að ég er algjörlega reiðubúinn til að beita mér fyrir því að sú fjárhagslega liðveisla sem okkur berst frá Evrópusambandinu verði með einhverjum hætti aukin þannig að hægt sé að sjá aukin efnahagsleg umsvif í samfélaginu vegna þess að það er það sem hv. þingmaður kallaði eftir.