140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[14:57]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er athyglisvert að fá að taka þátt í umræðu um hina svokölluðu IPA-styrki. Það kom fram í máli þess ræðumanns sem var í pontu á undan mér að Ísland er greinilega ekki lengur í Evrópu. Það er kannski hluti af þessari umræðu, slík einangrunarhyggja að ætla að Ísland sé ekki lengur partur af álfunni Evrópu. Vitaskuld er Ísland í Evrópu og hefur alltaf verið. (Gripið fram í.) Íslendingar líta á sig sem Evrópuþjóð (Gripið fram í.) eins og hefur alltaf verið. Ég veit reyndar ekki með framsóknarmenn, miðað við þær ræður sem hér hafa verið fluttar, hvort þeir líta enn þá á sig sem Evrópuþjóð. Þetta snýst vitaskuld um það að við sem Íslendingar, partur af álfunni (Gripið fram í.) Evrópu, [Hlátur í þingsal.] erum að sækja um aðild að Evrópusambandinu með þeim réttindum og skyldum sem við þar höfum.

Hvers vegna skyldum við sem þjóð haga málum okkar öðruvísi en aðrar þjóðir í þessu ferli? Hvers vegna ættum við að setja okkur skör neðar í þessu ferli en aðrar þjóðir? Hvers vegna ættum við ekki, herra forseti, að vera á pari við aðrar þjóðir þegar þær hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu? Það erum við að gera með þessum hætti. Við látum Evrópusambandið greiða fyrir þann kostnað sem hlýst af umsókninni, ekki sem hlýst af aðildinni heldur umsókninni.

Eins og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra munu Íslendingar ekki bera kostnað af þeim fjármunum sem Evrópusambandið lætur landinu í té ef svo fer að aðildinni verður hafnað. Má ætla að það gerist ekki miðað við þær kannanir sem koma nú hverjar á fætur annarri á síðum dagblaða og víðar í íslenskri þjóðmálaumræðu.

Herra forseti. Sá sem hér stendur hefur verið talsmaður þess að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Ef til vill er umræðan í íslenskri pólitík tvenns konar. Annars vegar eru þeir sem hafa áhuga á að skoða hvað er í boði, hvað samningur færir þjóðinni, almenningi og neytendum, og hvort hann getur gert það að verkum að Ísland og íslenskt samfélag batni. Þetta eru svörin sem Íslendingar vilja fá við þessum samningi. Hins vegar eru þeir sem vilja ekki fyrir nokkurn mun sjá svona samning, eru á móti hvaða samningi sem er, jafnvel þó að hann væri einstaklega góður og þannig að íslenskt samfélag mundi batna að mun. Líklega líta þeir sem hafa ekki nokkurn áhuga á að skoða samning svo á að íslenskt samfélag sé með besta móti nú um stundir og þurfi ekki á neinum lagfæringum að halda.

Ég tel að Ísland hafi lagast við það að verða aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Margt í regluverki okkar sem var fúið og lélegt hefur batnað til muna og samkeppnishæfni Íslands hefur aukist til mikilla muna í alþjóðlegum samskiptum eftir að landið gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Með umsókn að Evrópusambandinu ætlum við núna að skoða hvort þessi samkeppnishæfni og ásýnd á atvinnulífi, félagslífi og öðru í samfélagi okkar kunni ef til vill að batna við það að ganga í Evrópusambandið. Ég er talsmaður þess að ef svo reynist ekki vera verði samningurinn felldur. Ég er einungis í þessari vegferð upp á þau býtti að aðild auki hag alls almennings á Íslandi og þá er ég að tala um alls almennings, til sjávar og sveita, til borgar og bæja, af báðum kynjum og á öllum aldri.

Hvers vegna erum við að taka við þessum styrkjum? Við erum einfaldlega að taka við þeim, herra forseti, til að vera í stakk búin til þess að ganga í Evrópusambandið ef það verður samþykkt á þeim tíma. Við erum að breyta stofnanakerfi okkar í átt að því sem best þekkist í Evrópu. Vegna þess að við erum nú þegar komnir með regluverk okkar það langt inn í Evrópusambandið þurfum við ekki að taka upp, eins og fram kemur á bls. 3 í greinargerð með þessari tillögu, neinar nýjar stofnanir. Engar slíkar þarf að byggja upp innan stjórnkerfisins hér á landi af þessum sökum líkt og gert hefur verið í öðrum umsóknarríkjum. Með þessum IPA-styrkjum erum við einvörðungu að styrkja það stjórnkerfi sem nú þegar er til staðar.

Hér hefur verið gagnrýnt, herra forseti, að skattar og skyldur séu ekki greidd af þeim verkefnum sem verða sett á koppinn vegna þessara IPA-styrkja. Þá er þess að geta að þar er farið að reglum um alþjóðastofnanir sem Íslendingar hafa umgengist á undanliðnum árum og áratugum og eru algerlega í samræmi við það sem þekkist þegar komið er á fót alþjóðastofnunum í hvaða ríki sem er eða sendiráðum ef því er að skipta. Í þessu efni er einfaldlega annars vegar farið eftir þeim reglum sem hafa tíðkast við umsóknarferli á síðustu árum og áratugum og hins vegar hvað varðar alþjóðastofnanir í hverju ríki og eru gagnkvæmir samningar eins og fram kemur í þessu plaggi hér.

Grundvallaratriðið í þessu efni er að Íslendingar beri sem minnstan kostnað af aðildarumsókninni. Ég tel eðlilegt að Evrópusambandið sem í krafti reglna sinna vill breyta regluverki innan stofnana í því ferli sem fram undan er, þar til þjóðin tekur afstöðu til samningsins, beri þann kostnað en ekki Íslendingar. Það finnst mér sanngirnismál.

Menn hafa nefnt í þessari umræðu hvort slíkur kostnaður eigi ekki einfaldlega að koma eftir á. Á það hefur verið bent að það sé ekki hægt vegna þess að regluverk hér heima þurfi að vera í takt við það sem þekkist í Evrópu þegar kemur að samþykkt samningsins. Ef honum verður hins vegar synjað munu Íslendingar ekki bera kostnað af þessum breytingum og það er vel. Það er sanngjarnt. Þess vegna tel ég hér vel af stað farið og allrar sanngirni gætt, herra forseti.

Auðvitað greinir okkur á um leiðir í þessu efni. Íslendingar skiptast í tvo hópa, jafnvel þrjá, í afstöðunni til Evrópusambandsaðildar, þá sem vilja sjá hvað kemur út úr samningi, þá sem vilja ekki sjá einn einasta samning af einhverjum ástæðum og svo þá sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið án þess að skoða samninginn, þá sem eru það sannfærðir.

Ég er ekki í þeim hópi sem síðast var nefndur. Ég vil skoða samninginn með opnum huga. Ég tek það skýrt fram og vil hafa þann fyrirvara að geta greitt atkvæði gegn honum ef hann reynist ekki góður fyrir allan almenning hér á landi. Það er eðlilegt, í ljósi þess að Alþingi ákvað að hefja þessa vegferð, að við notum til þess þau tæki sem tæk eru í aðildarferlinu, að við þiggjum þessa styrki til þess að Evrópusambandið beri kostnaðinn af ferlinu en ekki Íslendingar. Það er grundvallaratriði í umræðunni um þessa þingsályktunartillögu og menn skulu hafa það í huga. Ég tel að þegar allrar sanngirni sé gætt muni menn ekki hafa viljað vera talsmenn þess að Íslendingar ættu að borga fyrir aðlögunarferlið (Gripið fram í.) heldur miklu fremur þeir sem eru nú þegar innan Evrópusambandsins. Það eru þeir sem eiga að taka áhættuna af þessu en ekki Íslendingar.