140. löggjafarþing — 47. fundur,  24. jan. 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[15:21]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru margar spurningar og ég ætla að reyna að svara þeim öllum á stuttum tíma. Frjáls viðskipti verða vitaskuld áfram við lýði eftir að við göngum í Evrópusambandið. Það er nægilegt að horfa til Þýskalands, eins mesta hagkerfis í heimi sem hefur blómstrað eftir öll sín ár í Evrópusambandinu og getur gengið til frjálsra viðskipta við hvaða þjóð sem er og hefur gert það á undanliðnum árum.

Það eru margar spurningar sem komu fram, um lýðræðishallann þar á meðal. Ég tel að lýðræðishallinn sé okkur í hag innan Evrópusambandsins. Vægi okkar verður miklu meira en sem nemur íbúafjölda. Ég ætla að nefna sem dæmi, í ljósi Lissabon-sáttmálans, að þingmenn okkar verða að lágmarki sex á móti 15 í Danmörku. Nú er verið að auka vægi minni þjóða innan Evrópusambandsins. Áður voru þetta fimm þingmenn að lágmarki en 99 að hámarki. Samkvæmt Lissabon-sáttmálanum hefur þetta verið að minnka úr 99 niður í 96 og aukast úr fimm í sex; með Lissabon-sáttmálanum er verið að koma til móts við fámennari ríki frekar en fjölmennari. Við kjósum um það sem við kjósum sem oftast og ég er talsmaður þess að við kjósum sem oftast.